Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ætlar að safna undirskriftum frá þjóðinni sem nota á til að „handjárna næstu ríkisstjórn þannig að hún verði að setja það fé í heilbrigðismálin sem eðlilegt má teljast." Hann segir Íslendinga nú eyða 8,7 prósent af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála en meðaltalið í löndunum í kringum okkur sé rúmlega tíu prósent. „Við erum lítil þjóð þannig að það er líklegt að kostnaður við heilbrigðisþjónustu á nef hvert sé töluvert meiri hér en á meðal stærri þjóðanna. Þannig að ég held að það sé ekkert óeðlilegt að við stefnum að því að við eyddum í kringum 11 prósent af vergri þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála." Þetta kom fram í viðtali við Kára í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Kári segist hafa verið að forma með sér, með hjálp góðra manna, hugmynd að undirskriftasöfnuninni og veltir fyrir sér hvort ekki sé mögulegt að ná meirihluta þjóðarinnar til að skrifa undir hana. „Og það sem ég er raunverulega að segja er að það er kominn tími til þess að beita beinu lýðræði í málaflokki eins og þessum. Beina lýðræðið er möguleiki í dag með netaðgangi. Ég held að það sé hægt að ná til fólksins í landinu og gefa því tækifæri til þess að tjá sig um þennan málaflokk á tiltölulega stuttum tíma. Ekki held ég að það verði þægilegt fyrir þá sem setjast á ráðherrastóla næst að stija uppi með undirskriftir, við skulum segja 80 prósent þjóðarinnar. Hvernig í ósköpunum ættu þeir að hunsa slíkan vilja?"
Afturenda hinna loforðaglöðu
Það vakti gríðarlega athygli þegar Kári skrifaði grein í Fréttablaðið 10. desember síðastliðinn þar sem hann hótaði að safan 100 þúsund undirskriftum gegn sitjandi ríkisstjórn. Í greininni sagði Kári m.a.: „Það er orðið lýðum ljóst að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs mun ekki sitja lengur en sem nemur kjörtímabilinu. Ástæðan er margþætt og það á við hér eins og segir í Geirmundarsögu Heljarskinns að: „það renna margir orsakalækir að einum ósi örlaga.“ Rýnum nú í þau spjöld í sögu ríkisstjórnarinnar sem gera það að verkum að það er búið að skammta henni þá daga sem hún mun telja.“
Kári sagði að við það ástand sem er við lýði í heilbrigðismálum þjóðarinnar verði ekki lengur búið. Þess vegna vilji hann láta fjárlaganefnd Alþingis vita að ef hún breytir ekki fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 á þann veg að mun meira fari til Landsspítalans en stefnt er að „munum við nokkrir félagar safna 100.000 undirskriftum undir plagg sem hvetur landsmenn til þess að kjósa aldrei aftur þá stjórnmálaflokka sem standa að þessari ríkisstjórn vegna þess kulda og afskiptaleysis sem hún sýnir sjúkum og meiddum í okkar samfélagi. Söfnunin verður létt verk og löðurmannlegt. Þjóðinni ofbýður.“
Í greininni setti Kári fram harða og ítarlega gagnrýni á framgöngu ríkisstjórnarinnar gagnvart heilbrigðiskerfinu og segir að hún hafi lofað því í aðdraganda síðustu kosninga að styðja betur við það. „Nú æxluðust mál þannig að afturendar hinna loforðaglöðu hafa vermt valdastóla í tvö og hálft ár en heilbrigðiskerfið er í engu minna rusli en áður og það horfir ekki til bóta nema síður sé.“