Yfirstjórn Seðlabanka Íslands segist ekki geta séð hvernig bankinn geti komið til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis um meðferð gjaldeyrismála og segir tilvik og athugasemdir sem umboðsmaður gerði athugasemdir við séu „víða óljós“. Yfirstjórn bankans hafnar því einnig að hafa brotið gegn lögmætisreglu með stofnun eignarhaldsfélagsins Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) eftir bankahrun, en það félag hefur fengið til sín allar þær eignir og kröfur sem Seðlabankanum hefur áskotnast vegna hrunsins. Um er að ræða eignir, meðal annars hlutir í fyrirtækjum og fasteignir, og kröfur upp á hundruði milljarða króna. ESÍ hefur á undanförnum árum selt margar þeirra eigna sem félaginu áskotnaðist.
Þetta kemur fram í greinargerð sem yfirstjórn Seðlabanka Íslands hefur tekið saman fyrir bankaráð hans vegna bréfs sem umboðsmaður Alþingis sendi 2. október 2015 vegna athugunar hans á meðferð gjaldeyrismála og umsýslu og meðferð krafna og eigna sem félög í eigu bankans fara með.
Sér ekki hvernig bankinn getur komið til móts við umboðsmann
Greinargerð Seðlabankans að hluta til um gjaldeyrismál og þá gagnrýni umboðsmanns Alþingis sem hann setti fram á meðhöndlun Seðlabankans í umsögn sinni. Í áliti umboðsmanns frá því í október kemur meðal annars fram að hann hafi sjálfur, strax við upphaf athugunar hans í lok árs 2010, staðnæmst sérstaklega við þá leið sem farin var í lögum þegar gjaldeyrishöftin voru tekin upp haustið 2008. Þar var Seðlabanka Íslands fengin heimild til að gefa út, að fengnu samþykki ráðherra, reglur um gjaldeyrismál. Hinar eiginlegu efnisreglur um gjaldeyrishöftin voru í reglunum og brot gegn þeim gátu varðað refsingum. Umboðsmaður taldi vafa leika á því að þetta fyrirkomulag uppfyllti þær kröfur sem leiða af reglum um lögbundnar refsiheimildir og skýrleika refsiheimilda.
Til viðbótar komu síðan atriði sem lutu að samþykki ráðherra á reglunum og birtingu þess, en eins og fram hefur komið, þá felldi Seðlabankinn niður 23 mál á dögunum, þar sem sérstakur saksóknari telur reglurnar gallaðar. Enginn einstaklingur hefur fengið dóm fyrir brot á gjaldeyrislögum, frá því fjármagnshöft voru lögfest í nóvember 2008, eða fyrir tæpum sjö árum.
Bankaráðs Seðlabanka Íslands hefur samþykkt að láta gera athugun á framkvæmd gjaldeyrisreglna bankans, m.a. vegna niðurstöðu umboðsmanns Alþingis.
Í greinargerð yfirstjórnar Seðlabanka Íslands segir að hún geti ekki séð hvernig bankinn geti komið til móts við athugasemdir umboðsmanns Alþingis. „Að meginstefnu til lúta athugasemdir UA að gildi reglna um gjaldeyrismál sem refsiheimild ásamt tilvísunum til refsiheimilda, en slíkt er ekki á forræði Seðlabankans að meta. Þar að auki liggur fyrir afstaða ráðherra til gildis reglnanna sem refsiheimild. Líkt og UA bendir á er það fyrst og fremst hlutverk dómstóla að taka afstöðu til slíkra álitamála. Að öðru leyti eru ábendingar umboðsmanns almenns eðlis og lúta að lagaframkvæmd almennt, en ekki aðeins að lögum og reglum um gjaldeyrismál. Þegar efni bréfsins er dregið saman, hvað varðar meðferð gjaldeyrismála, verður ekki séð hvernig Seðlabankinn geti komið til móts við athugasemdir hans, einkum vegna þess að tilvik eða athugasemdir sem UA virðist byggja á eru víða óljós.“
Alþekkt fyrirkomulag um víða veröld
Hitt atriðið sem gagnrýnt var í bréfi umboðsmanns var að Seðlabanki Íslands hefði ekki skýra lagaheimild til að flytja verkefni við umsýslu og sölu eigna til ESÍ. Um er að ræða eignir, meðal annars hlutir í fyrirtækjum og fasteignir, og kröfur upp á hundruði milljarða króna. ESÍ hefur á undanförnum árum selt margar þeirra eigna sem félaginu áskotnaðist.
Tilefni þessarrar athugunar umboðsmanns voru meðal annars ábendingar um að þeir sem komið hefðu fram fyrir hönd bankans og ESÍ „hefðu gert það með áþekkum hætti og um væri að ræða einkaaðila en ekki ríkisstofnun. "Er það afstaða umboðsmanns að skýringar bankans um lagaheimild til flutnings verkefnanna hafi ekki verið fullnægjandi. Umboðsmaður leggur áherslu á að auk þess sem fullnægjandi lagaheimild þurfi að vera fyrir hendi til slíks flutnings opinberra verkefna frá ríkisstofnun sé líka mikilvægt að þeir starfsmenn sem fjalli um þessi mál, viðsemjendur um þessar eignir og kröfur og almennir borgarar séu ekki í vafa um eftir hvaða reglum, svo sem um meðferð valds og upplýsinga, hæfi og málsmeðferð að öðru leyti, eigi að fara í þessum tilvikum."
Yfirstjórn Seðlabankans segir í greinargerð sinni að það sé alþekkt um víða veröld að sett séu upp sérstök félög eða sjóðir um eignarhald og stýringu fullnustueigna í kjölfar fjármálakreppu. Með stofnun ESÍ hafi verið að bregðast við fordæmalausu ástandi í kjölfar bankahrunsins. Þetta á bæði við um bankana hér á landi sem og ríkissjóði og seðlabanka erlendis.
Hún hafnar því að brotið hafi verið gegn lögmætisreglunni með stofnun ESÍ. „Eingöngu var um að ræða aðskilnað innri verkþátta Seðlabankans sem ekki getur talist íþyngjandi fyrir borgarana enda höfðu þessar ráðstafanir í engu áhrif á réttindi eða skyldur þeirra sem Seðlabankinn átti kröfu á vegna bankahrunsins né þeirra sem hafa átt eða kunna að eiga viðskipti við ESÍ. Starfsemi félagsins felur ekki í sér hefðbundna stjórnsýslu, því hefur ekki verið falið að taka stjórnvaldsákvarðanir heldur hefur það með höndum innheimtu og fullnustu krafna og sölu fullnustueigna sem byggir alfarið á grundvelli fullnusturéttar, kröfu- og samningaréttar, rétt eins og verkefni annarra kröfuhafa hinna föllnu banka.“
Meðhöndlun krafnanna og fullnustueignanna í höndum ESÍ hafi verið og sé ekki með öðrum hætti en ef eignirnar hefðu áfram verið skráðar í bókum Seðlabankans.