Samkeppniseftirlitið hefur gefið grænt ljós á kaup Pressunnar ehf., félags sem stýrt er af Birni Inga Hrafnssyni, á tólf blöðum sem útgáfan Fótspor gaf áður út. Pressan heldur meðal annars úti fjölmiðlunum DV, dv.is, pressan.is og eyjan.is auk staðarblaðanna sem félagið keypti af Fótspori.
Í ákvörðun eftirlitsins segir að eftir rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins sé „ það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni á mörkuðum málsins og leiði ekki til myndunar eða styrkingar á markaðsráðandi stöðu. Þá leiðir samruninn ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Því eru ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans.“
Varnarorð fjölmiðlanefndar
Í ákvörðunininni segir hins vegar einnig að Samkeppniseftirlitið taki samt sem áður „að fullu undir varnaðarorð fjölmiðlanefndar og beinir þeim tilmælum til samrunaaðila að hafa hliðsjón af þeim.“
Í umsögn sinni segir fjölmiðlanefnd að sjálfstæði ritstjórna þeirra blaða sem Fótspor gaf áður út verði að vera „áfram tryggt og að ritstjórnum sem lagt hafa áherslu á gagnrýna og afhjúpandi umfjöllun verði gert kleift að gera það áfram. Verði raunin sú að ritstjórnarstefna þeirra blaða sem lagt hafa áherslu á gagnrýninn fréttaflutning færist í átt að hefðbundnari umfjöllunarefnum landbyggðarmiðla er ljóst að mati fjölmiðlanefndar að gagnrýnum röddum á fjölmiðlamarkaði fækki og þar með minnki fjölbreytni fjölmiðlaefnis. Af þeim ástæðum sé mikilvægt að tryggja sjálfstæði ritstjórna og þannig megi koma í veg fyrir að fjölbreytni fjölmiðlaefnis minnki."
Í athugasemdum Pressunnar við umsögn fjölmiðlanefndar var því mótmælt að fjölræði og fjölbreytni minnki með samrunanum. Því var sérstaklega mótmælt „að gagnrýnum röddum fækki þar sem tryggt verði að ritstjórar blaðanna muni hafa fullt ritstjórnarlegt sjálfstæði.“
Þegar búið að ráða nýja ritstjóra
Pressan keypti útgáfuna Fótspor, sem gefur út ýmis vikublöð víðsvegar um landið, í júlí síðastliðnum. Samningum við ritstjóra blaðanna, sem voru verktakar, var rift í kjölfarið. Á meðal þeirra voru Björn Þorláksson, sem ritstýrði Akureyri vikublaði, og Ingimar Karl Helgason, sem ritstýrði Reykjavík vikublaði.
Þegar hafa verið ráðnir nýir ritstjórar á suma vikublaðamiðlanna og útgáfa þeirra hefur hafist að nýju. Björn Jón Bragason var til að mynda ráðinn nýr ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs í október. Á sama tíma var Sigurður Ingólfsson ráðinn ritstjóri Austurlands vikublaðs.