Lítil fjárfesting í íbúðum, áhersla á þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu og almennt minna framboð á íbúðum en spáð var mun líkast til skapa meiri spennu á fasteignamarkaðnum en áður var talið. Það þýðir með öðrum orðum að verð mun hækka hraðar en spáð var. Þetta er mat sérfræðinga hjá Landsbankanum og Arion banka og dósents í hagfræði við Háskóla Íslands. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu.
Þar er rætt við Ara Skúlason, sérfræðings hjá hagfræðideild Landsbankans. Hann segir að fjárfesting í nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu sé að dragast saman sem sé þvert á fyrri spár. Hlutfall nýrra íbúða af seldum íbúðum á svæðinu sé einungis um sex prósent á síðustu fjórum mánuðum. Fyrir hrun, nánar tiltekið árin 2006 og 2007, hafi það verið 20 til 30 prósent. Þegar framboðið sé svona lítið hafi það áhrif á verðið og Ari telur áherslu á þéttingu byggðar eiga þátt í að verð á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu sé að hækka.
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, tekur undir það í samtali við Morgunblaðið. Skipulagsferlið í grónum hverfum sé einfaldlega lengra en þegar nýtt land sé notað undir byggð. Nokkur ár séu í að nýtt aðalskipulag fari að skila nýjum íbúðum.
Verð á íbúðum gæti tvöfaldast á átta árum
Konráð S. Guðjónsson, sérfræðingur hjá Arion banka, segir að framboð nýrra íbúða á næsta ári verði mögulega minna en spáð var. Í nýrri úttekt Greiningardeildar Arion banka sem kynnt var fyrr í þessum mánuði var því spáð að nafnverð húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu muni hækka um 30 prósent á næstu þremur árum. Nafnverð fjölbýlis á svæðinu hækkaði um 50 prósent frá byrjun árs 2011. Það þýðir að húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu mun mögulega nærri tvöfaldast á átta ára tímabili, frá 2011 til loka árs 2018, gangi spáin eftir.
Kjarninn greindi ítarlega frá úttektinni 9. desember síðastliðinn.
Töluverð útlánaaukning hefur orðið hjá bönkum á árinu 2015 og er hún m.a. rakin til skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar, sem í fólst greiðsla á 80 milljörðum króna til þeirra sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009. Leiðréttingin hefur aukið veðhlutfall þeirra sem hana fengu mikið, og það hefur leitt af sér útlánaaukningu. Athygli vekur að aðsókn í verðtryggð lán hefur aukist mikið það sem af er ári og eru þau nú um helmingur nýrra útlána. Þetta gerist á sama tíma og miklar pólitískar umræður eru um afnám verðtryggingar og annar stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, ýtir mjög á að slíkt afnám eigi sér stað.
Samkvæmt úttekt Arion banka er ekki verið að mæta þeirri uppsöfnuðu þörf sem er fyrir byggingu íbúða með nýjum framkvæmdum. Raunar hafi verið samdráttur á árinu 2015, sem er þvert á allar væntingar. Þá kemur fram að öfugt við það sem hefur gerst undanfarin ár hafi íbúðaverð hækkað umfram leiguverð á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári.