Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að ef núverandi stjórnarandstöðuflokkar ná meirihluta í næstu þingkosningunum séu flokkarnir siðferðislega bundnir því að reyna að mynda meirihlutastjórn í landinu. „Það má kalla það hvað sem er, kosningabandalag. Ef einhver flokkur vill slíta sig frá þessu þá þarf hann að tilkynna um það." Þetta kom fram í viðtali við Árna Pál í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.
Árni Páll benti á að flokkarnir sem mynda ríkisstjórn nú hafi mælst með hraustlegan minnihluta, um 35 prósent fylgi, í skoðanakönnunum nánast allt þetta kjörtímabil. Stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu mælst saman með um 65 prósent fylgi frá því snemma árs 2014. Fylgið innan hennar hafi síðan færst á milli flokka. Samfylkingin hafi til að mynda mælst með um 23 prósenta fylgi á síðasta ári, en fylgið hefur hrunið síðan þá. Síðustu níu mánuði hefur þorri þessa fylgis mælst hjá Pírötum, sem hafa verið stærsti flokkur landsins með yfir 30 prósent fylgi nánast allt þetta ár.
Aðspurður um hvort kosningabandalag væri í pípunum sagði Árni Páll að hann væri til í að vinna með öðrum umbótasinnuðum öflum. „Ef að stjórnaradnstaða vinnur meirihluta í kosningum þá ber henni skylda að reyna að mynda meirihlutastjórn. Menn yrðu siðferðislega bundnir því. Það má kalla það hvað sem er, kosningabandalag. Ef einhver flokkur vill slíta sig frá þessu þá þarf hann að tilkynna um það."
Árni Páll sagðist einnig alveg tilbúinn að skoða og ræða um að ganga lengra og setja sameiginlega málefnaskrá. Stjórnarandstaðan hefði verið einhuga í flestum stóru átakamálum sem upp hafi komið á þessu kjörtímabili og hafi til að mynda lagt fram sameiginlegar breytingartillögur við fjárlög tvö ár í röð. Það væri hins vegar flokkanna að ákveða það, ekki einstaklinga sem kosnir hafa verið til forystu innan þeirra. Lykilatriði fyrir honum yrði að sú málefnaskrá yrði grundvölluð á grunngildum jafnaðarmennsku.
Kjarninn fjallaði ítarlega um þá fordæmalausu pólitísku stöðu sem uppi er í dag í fréttaskýringu fyrir skemmstu.