Alls horfðu 128 þúsund manns á fyrsta þátt Ófærðar sem sýndur var á RÚV klukkan 21 í gærkvöldi. Meðaláhorf reyndist 49 prósent og uppsafnað áhorf 53 prósent, samkvæmt bráðabirgðatölum frá Gallup. Frá þessu er greint á vef RÚV. Einungis Söngvakeppni sjónvarpsins og Áramótaskaupið geta státað af meira áhorfi en Ófærð, en þættirnir eru bannaðir innan 16 ára.
Þættirnir segja frá því þegar sundurskorið lík finnst á sama tíma og Norræna kemur til hafnar. Með aðalhlutverkin fara Ólafur Darri Ólafsson, Ingvar E. Sigurðsson, Nína Dögg Filippusdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir.
Ófærð er dýrasta íslenska sjónvarpsþáttaröð sem hefur verið framleidd. Þáttaröðin hefur verið seld víða um heim og var m.a. seld til The Weinstein Company í september, en það í fyrsta sinn sem íslensk þáttaröð er seld til Bandaríkjanna. Hún hefur einnig verið seld til sjónvarpsstöðva víða í Evrópu. Kostnaður við verkefnið nemur rúmum milljarði króna.
Baltasar Kormákur hefur veg og vanda að gerð þáttanna, en framleiðslufyrirtæki hans RVK Studios framleiðir þá. Hann tjáði sig um fjármögnun verkefnisins í september síðastliðnum í umræðum sem haldnar voru í tilefni af kvikmyndahátíðinni RIFF og báru yfirskriftina „Er íslensk kvikmyndagerð góð fjárfesting?"
Baltasar sagðist þar oft hafa lent í miklum vandræðum með íslenska bankakerfið, meðal annars í gerð á Ófærð, þótt þættirnir hafi notið ýmissa styrkja. Það hafi vantað pening á meðan á framleiðsluferlinu stóð, styrkir og önnur fjármögnun komi inn þegar verkinu sé skilað. „Það er svo lítil þekking inni í bankakerfinu og fjármálakerfinu,“ sagði hann. Það sé svo mikið fjallað um fjárhagslegu vandamálin en ekki um það sem gangi vel. Á endanum hafi Gamma stigið inn í verkefnið með 500 milljónir króna. „Þeir eru að græða á þessu,“ sagði Baltasar. Á endanum hafi því tekist að fjármagna verkefnið upp á tæpan milljarð.