Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, útilokar enn ekki að bjóða sig fram til forseta. Hún segir framboð þó ekki vera á dagskrá og finnst erfitt að útiloka nokkurn skapaðan hlut, hvort sem um er að ræða forsetaframboð eða nokkuð annað.
„Ég hef þetta ekki í hyggju,” undirstrikar Katrín í samtali við Kjarnann.
Augu margra hafa hvarflað til Katrínar undanfarin misseri í tengslum við komandi forsetakosningar. Hún nýtur til að mynda mests stuðnings meðal lesenda Vísis þar sem spurt var hver ætti helst að taka sæti Ólafs Ragnars Grímssonar, núverandi forseta, á Bessastöðum í sumar.
Ólafur Ragnar tilkynnti á nýjársdag að hann ætli ekki að bjóða sig fram til embættisins í sjötta sinn. Þar sagði hann að óvissan sem var fyrir hendi fyrir fjórum árum, og leiddi til áskorana um að hann yrði áfram forseti, móti ekki lengur stöðu Íslendinga.
Stjórnmálafræðingar hafa sagt undanfarna daga að margt bendi til þess að allt stefni í sögulegar kosningar þann 25. júní næstkomandi, þar sem frambjóðendur kunni að vera fleiri en nokkru sinni áður.