Yfir hundrað þúsund manns hafa skrifað undir undirskriftarlista á síðunni Change.org sem fer fram á að Steven Avery, umfjöllunarefni heimildarmyndaþáttaraðarinnar Making a Murderer sem nýverið var sett í sýningar á Netflix, og frændi hans Brendan Dassy verði náðaðir af forseta Bandaríkjanna. Auk þess hafa hátt í 20 þúsund manns skrifað undir formlega beiðni til Hvíta hússins þar sem farið er fram á hið sama. Ef sú undirskriftarsöfnun nær 100 þúsund undirskriftum fyrir 16. janúar þá verður Hvíta húsið að svara henni opinberlega. Frá þessu er greint á síðu Time.
Í þáttunum, sem hafa vakið gríðarlega athygli, er saga Steven Avery frá Manitowoc Country í Wisconsin-ríki sem var dæmdur í fangelsi fyrir kynferðisbrot árið 1985. Hann sat inni í 18 ár en var sleppt árið 2003 eftir að DNA-sýni sýndi fram á sakleysi hans. Avery fór í kjölfarið í mál við sýsluna þar sem hann var dæmdur og krafðist 36 milljón dala í miskabætur.
Í nóvember 2005 var hann síðan ákærður fyrir morð og hefur setið inni síðan. Making a Murderer-þættirnir rekja sögu hans, og frænda hans Brendan Dassy sem einnig situr inni fyrir aðild að morðinu, frá 1985 og fram til dagsins í dag.
Í fótspor Serial
Þáttaraðir sem fjalla um raunveruleg glæpamál hafa náð miklum vinsældum undanfarin misseri. Brautryðjandi í þeim efnum var hlaðvarpið Serial, sem sett var í loftið í október 2014. Það fjallaði um mál Adnan Syed, sem var ákærður og dæmdur fyrir morð á 18 ára fyrrum kærustu sinni sem framið var árið 1999.
Þættirnir nutu fordæmalausra vinsælda. Í febrúar 2015 var búið að hlaða þeim niður 68 milljón sinnum. Þeir fengu Peabody verðlaunin fyrir besta hlaðvarp ársins í apríl síðastliðnum. Önnur þáttaröð Serial fór í loftið í desember 2015 en þar umfjöllunarefnið annað.
Ljóst er að vinsældir þáttanna hafa haft mikil áhrif. Í nóvember heimilaði dómari að lögmenn Syed myndu fá að leggja fram ný gögn í málinu sem mögulega sýna fram á sakleysi hans.