Bandarísk yfirvöld fara fram á að Volkswagen greiði allt að 90 milljarða dollara í kæru á hendur fyrirtækinu fyrir að svindla á mengunarreglum. Það er um það bil fimm sinnum meira en upphaflega var áætlað að þýski bílaframleiðandinn þyrfti að greiða. Strax í september, eftir að upp komst um svindlið, lagði Volkswagen til hliðar um sjö milljarða dollara til að standa straum af sektum og skaðabótum.
Það er þó ekki víst að Volkswagen muni þurfa að greiða 90 milljarða dollara sekt sem saksóknari fer fram á, því venjulega er samið um málamiðlun áður en málið fer fyrir dóm. Fréttastofa Reuters hefur eftir sérfræðingum sínum að reikningurinn verði að öllum líkindum mun hærri en gert hafði verið ráð fyrir.
Samkvæmt ákærunni sem var gefin út í gær voru nærri 600.000 bílar í Bandaríkjunum sem búnir voru svindlbúnaðinum. Fréttaskýrendur hafa gert að því skóna að Volkswagen gæti þurft að borga 150.000 dollara fyrir hvern hvern bíl. Að minnsta kosti fjögur lagaákvæði eiga við um brot fyrirtæksins sem hægt er að sekta fyrir.
Bandarísk stjórnvöld fyrirskipuðu innköllun 482.000 bifreiða frá bæði Volkswagen og dótturfyrirtækinu Audi í haust. Allir bílarnir sem ekki stóðust mengunarpróf voru framleiddir á árunum 2009 til 2015. Tölvukerfi bílanna breytti stillingum bílanna þegar þeir voru tengdir við tölvur yfirvalda og minnkuðu útblásturinn til að standast reglur. Um leið og þeir voru teknir úr sambandi losuðu þeir hins vegar 40 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum en leyfilegt er.
Hlutabréfaverð í Volkswagen hefur hrunið síðan upp komst um svindlið og virði þeirra heldur áfram að lækka þrátt fyrir að búið sé að skipta um lykilmenn í yfirstjórn fyrirtækisins. Í morgun náði hlutbréfaverð í fyrirtækinu sex vikna lágmarki eftir að hafa fallið um rúmlega sex prósent síðan í gær. Hlutabréfaverðið er nú 22 prósent lægra en það var áður en hneyklsið kom upp. Sektirnar og virðisfallið gæti bolað Volkswagen af bandarískum bílamarkaði, þar sem þýska fyrirtækið hefur alltaf átt erftit uppdráttar.
Upp komst um sama búnað í bílum fyrirtækisins sem svindlaði á sambærilegum prófunum í Evrópu. Þar gæti Volkswagen þurft að greiða háar sektir einnig.
Á vordögum ársins 2015 tók Volkswagen framúr Toyota sem stærsti bílaframleiðandi í heimi. Hlutabréfaverð í þýska fyrirtækinu náðu hámarki í mars en virðið féll um 26 milljarða evra á einum sólarhring eftir að upp komst um skandalinn. Það er andvirði tvöfaldrar landsframleiðslu Íslands árið 2014. Þetta hefur ekki aðeins gríðarleg áhrif á fyrirtækið Volkswagen, sem hugði á frekari vinninga meðal bílaframleiðanda áður en hneykslið komst upp; það hugðist taka þátt í Formúlu 1, Le Mans og helstu kappökstrum heims. Alls skipar bílaútflutningur 20 prósent af heildarútflutningi Þjóðverja og hjá Volkswagen, Audi og Porche störfuðu 775.000 manns í haust.