Jóhannes Hauksson, stjórnarformaður Fáfnis Offshore, vill ekki tjá sig um stöðu fyrirtækisins. Hann segir í tölvupósti til Kjarnans að hann sé bundinn trúnaði um málið og muni ekki tjá sig um það. Jóhannes starfar hjá Íslandssjóðum og stýrir þar framtakssjóðnum Akri, sem á 30 prósent hlut í Fáfni Offshore. Helstu eigendur sjóðsins eru þrettán lífeyrissjóðir, Íslandsbanki og VÍS. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti eigandi Akurs með 19,9 prósenta hlut. Þar á eftir kemur Gildi – lífeyrissjóður með 15 prósent. Íslandsbanki á 14 prósenta hlut en aðrir hluthafar tíu prósent eða minna.
Það hefur mikið gengið á hjá Fáfni Offshore, íslensku fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla á norðlægum slóðum, undanfarin misseri. Síðla árs 2014 fjárfestu íslenskir lífeyrissjóðir fyrir milljarða króna í fyrirtækinu og stefna þess var að reka 3-4 fokdýr skip sem starfaði á ofangreindum þjónustumarkaði.
Síðan þá hefur verðhrun á olíumörkuðum orsakað að eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem Fáfnir Offshore veitir er nánast engin og tugum skipa sem sinna henni hefur verið lagt.
Kjarninn fjallaði ítarlega um stöðu Fáfnis Offshore í fréttaskýringu sem birt var í gær.
Segir að eini samningurinn sé í uppnámi
Kjarninn greindi frá því í byrjun desember að afhending á Fáfni Viking, skipi í eigu Fáfnis Offshore, hafi verið frestað í annað sinn. Skipið átti að afhendast í mars á þessu ári en samkvæmt nýju samkomulagi milli Fáfnis og norsku skipasmíðastöðvarinnar Hayvard Ship Technologies AS, sem skrifað var undir í byrjun þessa mánaðar, mun afhending þess frestast fram til júnímánaðar 2017.
Heimildir Kjarnans herma að ástæða frestunarinnar á afhendingu á nýja skipinu sé einföld: ástandið á olíumarkaði hefur leitt til þess að engin verkefni séu til staðar fyrir skip eins og Fáfni Viking, sem á að þjónusta olíuiðnaðinn í Norðursjó. Í júní 2014 var heimsmarkaðsverð á tunnu af Brent-olíu 115,9 dalir. Nú kostar hún um 37 dali og hefur því lækkað um 68 prósent á tæpu einu og hálfu ári.
Eina skipið sem Fáfnir á og er með í vinnu er Polarsyssel, sem kostaði yfir fimm milljarða króna og er dýrasta skip Íslandssögunnar. Það skip var afhent haustið 2014 og er með þjónustusamning við sýsluembættið á Svalbarða um birgðaflutninga og öryggiseftirlit í níu mánuði á ári.
Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, sagði í grein sem hann skrifaði í fyrradag að sá samningur, sem er eina tekjuberandi verkefni Fáfnis Offshore, sé mögulega í uppnámi eftir að stjórn fyrirtækisins rak Steingrím Erlingsson, forstjóra og stofnanda Fáfnis Offshore, úr starfi í desember.
Í grein sinni sagði Ketill að samkvæmt sínum heimildum „úr norsku stjórnsýslunni er þessi nýi samningur þó ekki alveg skotheldur ennþá. Því þó svo kveðið hafi verið á um fjárframlag til sýslumannsembættisins á Svalbarða í norska fjárlagafrumvarpinu, vegna 9 mánaða leigu, virðist nú raunveruleg hætta á því að samningurinn falli niður. Vegna hinnar óvæntu nýlegu ákvörðunar stjórnar Fáfnis að segja framkvæmdastjóranum Steingrími Erlingssyni, fyrirvaralaust upp störfum og skilja fyrirtækið eftir án hæfs leiðtoga og með afar óljós markmið um framtíðina.“
Kjarninn hafði samband við Bjarna Ármansson, sem á hlut í Fáfni og situr í stjórn fyrirtækisins, til að tjá sig um stöðu Fáfnis Offshore. Hann var staddur erlendis og benti á Jóhannes Hauksson, sem er stjórnarformaður Fáfnis Offshore. Jóhannes starfar hjá Íslandssjóðum og stýrir þar framtakssjóðnum Akri, einum stærsta eiganda Fáfnis. Hann vill, líkt og áður sagði, ekkert tjá sig um stöðuna.