Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að
ummæli hans um að krónan sé sterkasti og stöðugasti gjaldmiðill í heimi séu rétt
vegna þess að lánveitandinn sem láni gjaldmiðilinn sé alltaf öruggur um að fá
allt sitt til baka. Lántakinn beri alla áhættuna. Sigmundur Davíð lét ummælin
um krónuna falla í viðtalið við Bítið á Bylgjunni í gærmorgun og netmiðlar
birtu fréttir með fyrirsögnum sem tengdust þeim.
Forsætisráðherra gerir ummælin og fréttir um þau að umræðuefni í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag. Þar segir hann að „vefmiðlar þurfa auðvitað að fá sín klikk og í mörgum tilfellum gerði meginmál fréttanna því ágætis skil um hvað var að ræða. En nettröll eru hvorki þekkt fyrir einbeitingu né yfirvegun. Þau komust auðvitað ekki lengra en í gegnum fyrirsögnina, hrukku af hjörunum og deildu fréttunum um allt. Það kom sér ljómandi vel því að fyrir vikið komust fréttirnar til miklu fleira fólks en ella hefðu séð þær og þeir sem höfðu áhuga gátu kynnt sér innihaldið.
Svona vinnur þetta allt saman. Stjórnmálamenn sem þurfa að koma mikilvægum atriðum á framfæri, vefmiðlar með sínar fyrirsagnir og tröllin sem dreifa efninu ólesnu. Hjá þeim eru viðbrögðin alltaf fyrirsjáanleg, þau eru jafn sterk og stöðug og verðtryggð íslensk króna.“