Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og
viðskiptaráðherra ætlar að leggja fram frumvarp um heimagistingu á vegum
einkaaðila sem á að auðvelda útleigu íbúða til ferðamanna og eftirlit með
þeirri starfsemi til að stemma stigu við svartri atvinnustarfsemi í greininni.
Hún hefur þegar sent þingflokkum stjórnarflokkanna frumvarpið. Þetta kemur fram
í Morgunblaðinu.
Samkvæmt frumvarpinu þá verður fólki heimilt að leigja út heimili sín og eina eign að auki í afmarkaðan tíma. Til þess þarf ekki rekstrarleyfi heldur er eignin skráð og hún fær númer. Einu viðbótarkvaðirnar eru þær að uppfylla þarf allar kröfur um brunatryggingar.
Ragnheiður Elín segir við Morgunblaðið að þeir sem vilji leigja út heimili sín á Airbnb setji þá númerið á eigninni sem þeim hefur verið úthlutað inn á vefinn. Þeir sem auglýsi án þess að hafa skráð númer séu þá augljóslega að reyna að komast hjá eftirliti og því að borga skatta af tekjum sínum vegna starfseminnar. Þannig einfaldist allt eftirlit og yfirvöld fái mun sterkari stjórntæki í hendurnar til að fylgjast með þessum hluta leigumarkaðarins.
250 af 1.900 gistiplássum Airbnb-plássum í Reykjavík með leyfi
Kjarninn greindi frá skýrslu sem unnin var í Háskólanum í Bifröst um umfang íbúðagistingar í ferðaþjónustu á Íslandi í nóvember 2015. Í niðurstöðum hennar kom fram að um fjögur prósent íbúða í Reykjavík eru legiðar til íbúðagistingar í skammtímaleigu, oftast í gegnum síðuna Airbnb.com, og er hlutfallið hátt miðað við aðrar borgir. Áhrif á fasteignamarkaðinn eru þau að í ýmsum hverfum Reykjavíkur er fasteignaverð hærra vegna aukinnar eftirspurnar eftir húsnæði undir íbúðagistingu, en fjölgun hótelherbergja hefur ekki haldið í við fjölgun ferðamanna sem hafa því leitað annarra gistimöguleika.
Fram kom að alls væru um 3.400 herbergi og íbúðir skráðar á Airbnb.com, þar af 1.900 herbergi og íbúðir í Reykjavík. Samkvæmt Sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu voru einungis þrettán prósent af þeim með skráð leyfi til íbúðagistingar. Það gera um 250 leyfi.
Skýrslan var unnin fyrir atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Í henni sagði að gildandi lagaumhverfi nái ekki nægilega vel utan um nýjan veruleika í íbúðagistingu, einfalda þurfi leyfisveitngaferlið og að reglur um skattlagningu séu ekki skýrar. Nýtt frumvarp Ragnheiðar Elínar virðist eiga að mæta þessum vanda.