Björgólfur Thor Björgólfsson, ríkasti maður Íslands, var myndaður með blómvönd á minningarathöfn sem haldin var um Lemmy Kilmister, söngvara hinnar goðsagnakenndu hljómsveitar Motörhead síðastliðinn sunnudag. Samkvæmt upplýsingum frá Ragnhildi Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúa Novator, var Björgólfur Thor þar mættur sem fulltrúi Andra Sveinssonar, félaga síns hjá Novator. Mynd af Björgólfi Thor birtist á Noisey sem er tónlistarhluti miðilsins Vice. Hana má sjá hér.
Andri er mikill Motörhead aðdáandi og hefur séð hljómsveitina sjö sinnum á sviði. Hann ætlaði sér að sjá hana aftur á tónleikum i London 29. janúar næstkomandi, en Lemmy lést sjötugur að aldri 28. desember. Af þeim tónleikum verður því ekki.
Í gær sunnudag söfnuðust hins vegar fjölmargir aðdáendur Lemmy´s saman á uppáhaldsstað hans, The Rainbow bar & grill, í Los Angeles. Björgólfur Thor er staddur í borginni sem stendur og að sögn Ragnhildar tók hann að sér að fara á minningaathöfnina fyrir hönd Andra og með blómvönd frá honum. Mynd af vendinum má sjá hér að ofan.
Björgólfur Thor hefur sjálfur tengt sig við Motörhead, en upphafi sjöunda kafla bókar hans, Billions to Bust and Back, sem kom út í fyrra er tilvísun í texta frægasta lags Motörhead, Ace of Spades. Textabrotið er eftirfarandi:
If you like to gamble, I tell you
I‘m your man
You win some, lose some.
All the same to me
The pleasure is to play,
Makes no difference what you say
Björgólfur Thor komst aftur á lista Forbes yfir þá sem eiga meira en einn milljarð dali, um 130 milljarða króna, í eignum í mars á síðasta ári. Þá voru fimm ár eru síðan að Björgólfur Thor komst síðast á listann. Björgólfur Thor var eini Íslendingurinn á listanum, og reyndar eini Íslendingurinn sem hefur nokkru sinni komist á hann. Eignir Björgólfs Thors eru metnar á um 1,3 milljarða dala, um 170 milljarða króna. Hann sat í 1.415 sæti á listanum.