Ekki hefur verið talið að nægjanlegt svigrúm sé fyrir hendi hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að verja fé í styrki eða niðurgreiðslur handa fjölmiðlum til að tryggja fjölbreytileika og koma í veg fyrir samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, líkt og gert er víða í Evrópu. Ráðuneytið hefur heldur ekki tekið afstöðu um hvort slíkar styrkja- eða niðurgreiðslur komi til greina hér á landi. Þetta kemur fram í svari Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn Heiðu Kristínar Helgadóttur, varaþingmanns Bjartrar framtíðar, um styrki eða niðurgreiðslur til fjölmiðla.
Heiða Kristín spurði Illuga einnig hvaða skoðun hann sjálfur hefði á slíkum niðurgreiðslum eða styrkjum til handa fjölmiðlum. Í svari Illuga segir að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hafi hlutverk fjölmiðla verið skýrt skilgreint, en þar segir að fjölmiðlar leiki „lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag“. Í fjölmiðlalögum sem settvoru fyrir nokkrum árum sé gengið út frá þessari skilgreiningu. „Auk tjáningarfrelsis, sem allir þegnar í lýðræðisríkjum njóta, er fjölmiðlum veitt tiltekin réttindi umfram aðra, t.d. er varðar vernd heimildarmanna. Í ljósi þeirrar sérstöðu og áhrifavalds, sem fjölmiðlar í lýðræðisríkjum hafa, er litið svo á að þeir hafi ríkum skyldum að gegna gagnvart almenningi. Í evrópskum lýðræðisríkjum er því almennt talið að fjölmiðlar séu af þessum sökum ólíkir öðrum fyrirtækjum og því sé eðlilegt að um þá gildi sérstakar reglur, sem taki mið af framansögðu.“
Illugi segir að af þessu leiði að ekki sé hægt að útiloka þann möguleika að fjölmiðlar njóti aðgerða af hálfu ríkisvaldsins til að auðvelda þeim að rækja hlutverk sitt en sem kæmu síður, eða alls ekki, til greina fyrir atvinnurekstur af öðru tagi. „En áður en til einhverra aðgerða er gripið þurfa að liggja fyrir ítarlegar rannsóknir og greiningar á rekstrarumhverfi fjölmiðla hér á landi og jafnvel einnig á fjölmiðlaumhverfinu almennt til að að byggja ákvarðanir á.“