Í samtali við blaðið segir Björgólfur Thor að nýja fyrirtækið sé að fullu fjármagnað af Novator. "Aðkoma Novators í Allergan, sem áður hét Actavis er að líða undir lok. Þar er félagið núna áhrifalaus fjárfestir í mjög stóru félagi. Það er ekki stefna Novators að halda áhrifalausum stöðum lengi, enda telja menn félagið sjálft best til þess fallið að ávaxta eigið fé.[...]Novator hefur áhuga og sérþekkingu á þessum geira og byggði upp Actavis frá grunni með góðum árangri þrátt fyrir skakkaföll. Félagið hefur sem fyrr áhuga á þessum markaði og menn telja áhugavert að byrja upp á nýtt."
Þessar vendingar gerðu það að verkum að í mars á síðasta ári var Björgólfur Thor kominn aftur á lista Forbes yfir þá sem eiga meira en einn milljarð dali, yfir 130 milljarða króna, í eignum. Fimm ár voru þá síðan að Björgólfur Thor komst síðast á listann. Björgólfur Thor var eini Íslendingurinn á listanum, og reyndar eini Íslendingurinn sem hefur nokkru sinni komist á hann. Eignir Björgólfs Thors voru metnar á um 1,3 milljarða dala, um 170 milljarða króna. Hann sat í 1.415 sæti á listanum.
Björgólfur skrifaði bók um ferð sína aftur af brún viðskiptalífsins. Kjarninn fjallaði ítarlega um hana í desember 2014.