Jón Gnarr, dagskrárstjóri 365 og fyrrverandi borgarstjóri, ætlar ekki að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands í ár. Hann útilokar það samt sem áður ekki að gera það seinna. Þetta kom fram í nýjum þætti á Stöð 2 í kvöld sem ber heitið Ísland Today. Þátturinn var sýndur á sama tíma og Ísland í dag og verður vikulega á dagskrá.
Jón hafði ekki viljað svara því undanfarna daga hvort hann ætli sér að bjóða sig fram til forseta í næstu kosningum, en sagt að hann myndi tilkynna það í dag.
Í mars síðastliðnum skrifaði Jón pistil í Fréttablaðið þar sem hann sagðist hins vegar ekki ætla að bjóða sig fram til forseta. Þá hafði könnun sem blaðið birti nokkrum mánuðum áður sýnt að 47 prósent aðspurðra vildu Jón í embættið. Í pistlinum sagðist Jóni óa við þeirri tilhugsun að verða hluti af þeim „ömurlega og hallærislega kúltúr" sem íslensk stjórnmálamenning sé. Hann sagðist þá ekki ætla að gera fjölskyldunni sinni það að „standa aftur andspænis freka kallinum", sem hafi tileinkað sér tilætlunarsemi, frekju og dónaskap í daglegum samskiptum.
Jón opnaði hins vegar á möguleikann á framboði á ný í Jólavöku RÚV, 20. desember síðastliðinn. Þar sagði Jón að honum þætti verkefnið spennandi og hann „væri alveg til í að vera forseti."