Þar ræddi forsætisráðherra þjóðaratkvæðagreiðslur og sagðist hlynntur því að þjóðin fengi oftar að segja skoðun sína í slíkum. „Tökum dæmi af stóru og umdeildu máli eins og verðtryggingunni. Þar hafa menn tekist á árum saman og ekki náð að leiða það til lykta í rökræðu. Ríkisstjórnin er með ákveðin áform í því efni sem hún vinnur að. Við finnum fyrir mótþróa á ýmsum stöðum og höldum áfram að reyna að ýta þessu áfram og breyta og bæta fjármálakerfið. [...] Þetta er mál sem maður sæi fyrir sér að væri hægt að setja í að minnsta kosti ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að stjórnvöld hefðu þá þjóðina á bakvið sig í því að fylgja þessu eftir."Sigmundur Davíð sagðist sannfærður um að hann fengi stuðning þjóðarinnar við afstöðu sína gagnvart verðtryggingu, en hann hefur ítrekað talað fyrir afnámi hennar.
Átti að mynda ríkisstjórn um afnám verðtryggingar
Framsóknarflokkurinn ræddi mikið um afnám verðtryggingarinnar í aðdraganda síðustu kosninga. Í pistli fyrir kosningarnar, sem nefndist Framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn, sagði Sigmundur Davíð meðal annars að staðan væri ekki flókin og ljóst væri að annað hvort yrði ríkisstjórn mynduð um skuldaleiðréttingu, afnám verðtryggingar og heilbrigðara fjármálakerfi, eða ríkisstjórn þeirra sem væru gegn þessum málum.
Í stefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar var þessi stefna einnig tíunduð. Þar sagði að flokkurinn ætlaði sér að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Undir þeim lið sem fjallaði um þá aðgerð sagði m.a.: „Fyrsta skrefið verði að setja þak á hækkun verðtryggingar neytendalána". Slíkt þak hefur ekki verið sett það sem af er kjörtímabilinu.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var þess vegna fjallað nokkuð mikið um verðtryggingu. Þar kom meðal annars fram að leiðrétta ætti verðtryggð lán sem hefðu orðið fyrir verðbólguskoti og að samhliða þeirri skuldaleiðréttingu ætti að „breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð“. Ekkert var hins vegar skjalfest þar um afnám verðtryggingar.
Forsætisráðuneytið skipaði þó starfshóp til að undirbúa afnám verðtryggingar skömmu eftir að ríkisstjórnin tók til starfa. Hann komst að þeirri niðurstöðu árið 2014 að það ætti ekki að afnema verðtryggingu.
Bjarni segir að verðtrygging verði alls ekki afnumin
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt opinberlega að það standi alls ekki til að afnema verðtryggingu. Þó hefur verið unnið að frumvarpi um breytingar á verðtryggðum lánum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þær breytingar áttu að þrengja að 40 ára jafngreiðslulánum og fara með þau niður í 25 ár. Það frumvarp hefur ekki verið á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.
Stjórnarandstaðan kallaði ítrekað eftir því á haustþinginu að Sigmundur Davíð myndi ræða afnám verðtryggingar við hana á Alþingi. Við því vildi forsætisráðherra ekki verða. Hann lítur svo á að afnám verðtryggingarinnar sé á borði Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra.