Lesendum Kjarnans var að venju boðið upp á hlaðborð fréttaskýringa og skoðanagreina um helgina. Á laugardagsmorgun birtist fréttaskýring um þá viðskiptavini einkabankaþjónustu og markaðsviðskipta Arion banka sem fengu að kaupa hlut í Símanum á undirverði og geta nú selt bréfin með hundruð milljóna króna hagnaði. Um er að ræða best stæðu viðskiptavini bankans. Samkeppniseftirlitið segir ástæðu til þess að hafa áhyggjur af aðstöðumun á fjármálamarkaði. Lestu allt um hvernig hinir ríku eru handvaldir til að græða peninga.
Næst færðum við okkur í alþjóðamálin. Undanfarið hefur verið tekist á um stuðning Íslands við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. Málflutningur hagsmunaaðila hefur verið hávær og mikið gert úr fjárhagslegu tjóni þeirra. Bjarni Bragi Kjartansson alþjóðastjórnmálafræðingur spurði hvort þjóðaröryggi Íslands sé einskis virði?
Tæknivarpið var á sínum stað og helgaði sig Windows þessa vikuna og ræddi við Microsoft-sérfræðingana Atla Jarl og Þorstein Þorsteins um framtíðarmöguleika fyrirtækisins.
Ritdeila hefur staðið yfir milli Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra 365, og Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, um meinta þátttöku miðla undir hennar í herferð dæmdra manna gegn trúverðugleika dómskerfisins. Þórður Snær svaraði leiðara sem Kristín birti á laugardag samdægurs. Þar sagði m.a.:„Við Kristín erum alveg sammála um að enginn afsláttur eigi að vera gefinn af reglum réttaríkisins, en á mismunandi forsendum. Ég er þeirrar skoðunar að réttarríkið sé ekki sjálfkrafa ónýtt þegar ríkir menn eru dæmdir í fangelsi á meðan að ritstjóri 365 er þeirrar skoðunar að það séu einmitt slíkar niðurstöður sem ónýti réttarríkið."
Warren Jeffs var um tíma á meðal þeirra manna sem taldir voru hættulegastir í Bandaríkjunum að mati FBI. Þó hann sé kominn bak við lás og slá þá er hann enn að stýra lífi þúsunda manna í Bandaríkjunum. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur kynnti sér óhugnalega þræði Jeffs og „dýrlinga“ hans.
„Að treysta núverandi kynslóðum fyrir Alþingisreitnum er menning í sjálfu sér og besta leiðin til að sýna verkum eldri kynslóða virðingu. Byggjum þar veglegt nútíma borgarhús, skilgreinum okkar eigin notkun á svæðinu og veitum næstu kynslóð reykvískra borgarhúsa innblástur." Þetta er meðal þess sem kom fram í áhugaverðri aðsendri grein eftir Birki Ingibjartsson, arkitekt, um hugmyndir um uppbyggingu á Alþingisreitnum.
Kraftajötuninn Ari Gunnarsson var gestur vikunnar í Grettistaki, sem fór að venju í loftið á sunnudagsmorgun. Hann ræddi æfingar, matarræði og Jakaból við Gretti.
Forstöðumenn og forstjórar danskra ríkisfyrirtækja og stofnana á vegum ríkisins (kirkjur þar meðtaldar) hafa kannski margir hverjir gjóað augum á almanakið í síðustu viku þegar þeir lásu bréf sem borist hafði frá Fjármálaráðuneytinu í Kaupmannahöfn. Margir þeirra hafa ugglaust haldið að það væri kominn 1. apríl. Bréf ráðuneytisins var hvorki langt né flókið. Þar var einfaldlega að finna fyrirmæli um að telja þær fánastangir sem tilheyra viðkomandi stofnun og standa utandyra. Borgþór Arngrímsson, fréttaritari Kjarnans í Kaupmannahöfn, fór yfir þetta furðulega mál á sunnudag.
Guðrún Ósk Þorbjörnsdóttir er eini Íslendingurinn innan hermáladeildar NATO og vinnur að kynjajanfrétti innan aðildarríkjanna. Hún var ráðin í starfsþjálfun fyrir ári en varð fljótt sérfræðingur á jafnréttisstofu NATO. Fimm ára dóttir hennar talar fjögur tungumál eftir flakk um heiminn. Sunna Valgerðardóttir tók afar áhugavert viðtal við Guðrúnu.
Við erum enn jafn furðulostin yfir þessu málverki eins og þegar fólk sá það fyrst í París 1863. Hvað er eiginlega að gerast á þessari mynd? Af hverju er konan nakin? Ef þú átt leið um París skaltu gera þér ferð á Orsay-safnið og upplifa undrið, eitthvert áhrifamesta og umdeildasta listaverk sögunnar: Le Déjeuner sur l´herbe eftir Manet. Málverk sem markar upphaf nútímalistarinnar. Freyr Eyjólfsson, fréttaritari Kjarnans í Frakklandi, útskýrði undrið í fréttaskýringu á sunnudag.
Nýr kafli hófst í sögu Írans með afléttingu viðskiptaþvingana um helgina. Meðal þess sem Íranir eru sagðir ætla að gera er að kaupa 116 nýjar flugvélar frá Airbus, eftir langt bann við sölu á flugvélum til þeirra.