Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir þjóðaratkvæðagreiðslur ekki vera markmið í sjálfu sér heldur tæki til að valdefla þjóðina gegn valdhöfum. Það séu ekki lýðræðisumbætur að ráðamenn leggi fram spurningar að eigin vali og eigin frumkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að það valdefli fyrst og fremst ráðamenn sjálfa. „Það er til dæmis nákvæmlega ekki neitt sem kallar á hugmynd forsætisráðherra um þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtrygginguna; nærri lagi væri að leggja tillöguna fram yfirhöfuð og svo gæti þjóðin kosið um hana ef hún sjálf kærði sig um það - en það á þá að vera að kröfu þjóðarinnar, ekki forsætisráðherra. (Svo er hitt að forsætisráðherra hefur forðast umræðu um verðtrygginguna á Alþingi eins og heitan eldinn og skiljanlega, en það er önnur saga.)“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Helgi Hrafn skrifar á Facebook þar sem hann tjáir sig um hugmynd Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra Íslands, um að setja verðtryggingu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hugmynd kynnti forsætisráðherra í þættinum Eyjunni á Stöð 2 í gær. Helgi segir ágætt að forsætisráðherra sé hlynntur því að þjóðin hafi meiri rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum en það verði þó að segjast að „sá málflutningur minnir óneitanlega á málflutning hans í sambandi við Evrópusambands-viðræðurnar fyrir kosningar. Ég hef nefnilega aldrei heyrt stjórnmálamann segjast vera á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, svo lengi sem þær annaðhvort eigi sér ekki stað eða skipti ekki máli.“
Þjóðaratkvæði ekki pólitískt vopn handa ráðamönnum
Helgi segir kröfuna um beint lýðræði í formi þjóðaratkvæðagreiðslna vera kröfu um að efla aðhald almennings að ráðamönnum. Þjóðaratkvæðagreiðslur sem séu einungis haldnar að frumkvæði ráðamanna geti aldrei orðið að slíku aðhaldi, heldur fyrst og fremst að pólitísku vopni ráðamanna sjálfra til þess að búa til pólitískan þrýsting sjálfum sér til stuðnings.“Það er ekki aukaatriði, heldur lykilatriði, að frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um mál á Alþingi komi frá þjóðinni en ekki ráðamönnum sjálfum. Ekki einn einasti einræðisherra er á móti þjóðaratkvæðagreiðslum svo lengi sem hann getur sjálfur ákveðið hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvenær.“
Því sé ekki bara stigsmunur heldur eðlismunur á þjóðaratkvæðagreiðslum að frumkvæði þjóðar annarsvegar og að frumkvæði ráðamanna hinsvegar. Hið fyrra séu lýðræðisumbætur, hið síðara pólitískt vopn handa ráðamönnum. „Lýðræðislegir ferlar eru ekki til þess að ráðamenn geti notað þá til að afla sér vinsælda heldur til þess að þjóðin sjálf geti ýmist tekið fyrir hendurnar á Alþingi eða knúið það til að fjalla um tiltekin mál.“
Framsókn ætlaði að afnema verðtryggingu
Sigmundur Davíð ræddi þjóðaratkvæðagreiðslur í Eyjunni í gær og sagðist hlynntur því að þjóðin fengi oftar að segja skoðun sína í slíkum. „Tökum dæmi af stóru og umdeildu máli eins og verðtryggingunni. Þar hafa menn tekist á árum saman og ekki náð að leiða það til lykta í rökræðu. Ríkisstjórnin er með ákveðin áform í því efni sem hún vinnur að. Við finnum fyrir mótþróa á ýmsum stöðum og höldum áfram að reyna að ýta þessu áfram og breyta og bæta fjármálakerfið. [...] Þetta er mál sem maður sæi fyrir sér að væri hægt að setja í að minnsta kosti ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að stjórnvöld hefðu þá þjóðina á bakvið sig í því að fylgja þessu eftir."Sigmundur Davíð sagðist sannfærður um að hann fengi stuðning þjóðarinnar við afstöðu sína gagnvart verðtryggingu, en hann hefur ítrekað talað fyrir afnámi hennar.
Framsóknarflokkurinn ræddi mikið um afnám verðtryggingarinnar í aðdraganda síðustu kosninga. Í pistli fyrir kosningarnar, sem nefndist Framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn, sagði Sigmundur Davíð meðal annars að staðan væri ekki flókin og ljóst væri að annað hvort yrði ríkisstjórn mynduð um skuldaleiðréttingu, afnám verðtryggingar og heilbrigðara fjármálakerfi, eða ríkisstjórn þeirra sem væru gegn þessum málum.
Í stefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar var þessi stefna einnig tíunduð. Þar sagði að flokkurinn ætlaði sér að afnema verðtryggingu á neytendalánum. Undir þeim lið sem fjallaði um þá aðgerð sagði m.a.: „Fyrsta skrefið verði að setja þak á hækkun verðtryggingar neytendalána". Slíkt þak hefur ekki verið sett það sem af er kjörtímabilinu.