Matthías er 41 árs. Hann var kosningastjóri Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2013. Á pólitískum vettvangi hefur Matthísas verið formaður Félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík, formaður kjördæmasambandsins í Reykjavík, í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna, í miðstjórn Framsóknarflokksins og í landsstjórn flokksins. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni, BA-prófi frá Háskóla Íslands í stjórnmálafræði og síðar MS-prófi frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Þá hefur hann stundað nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og stjórnunarnám við North Park University í Chicago í Bandaríkjunum. Áður vann hann sem ráðgjafi fyrir erlend fyrirtæki á sviði framtaksfjárfestinga. Þar áður var Matthías framkvæmdastjóri rekstrarsviðs flugfélagsins WOW-air og fyrir stofnun þess var hann forstjóri Iceland Express. Matthías starfaði um tíma í opinberri stjórnsýslu, fyrst sem sviðsstjóri fræðslu-, félags- og menningarsviðs á Blönduósi og síðar í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Að loknu námi starfaði hann hjá Símanum við ýmis stjórnunarstörf.
Með fjölmarga ráðgjafa
Auk aðstoðarmanna sinna hefur Sigmundur haft fjölmarga ráðgjafa á sínum snærum innan forsætisráðuneytisins. Þannig hefur Sigurður Már Jónsson, fyrrum ritstjóri Viðskiptablaðsins, starfað sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar með aðsetur í forsætisráðuneytinu frá því í september 2013. Benedikt Árnason hefur starfað sem sérlegur efnahagsráðgjafi forsætisráðherra frá 27. ágúst 2013. Þann 1. september 2014 var Lilja Alfreðsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu bankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands, ráðin í tímabundna verkefnastjórn sem tengdist vinnu ráðuneytisins við losun fjármagnshafta. Hún snéri aftur til starfa í Seðlabankanum um miðjan desember síðastliðinn.
Hrannar Pétursson, fyrrum upplýsingafulltrúi Vodafone, var ráðinn til forsætisráðuneytisins í lok árs 2014 til að móta stefnu Stjórnarráðsins í upplýsinga- og samskiptamálum. Hann starfaði þar í tæpt ár en er nú að íhuga forsetaframboð. Í mars 2014 var Margrét Gísladóttir ráðin sem sérstakur ráðgjafi í forsætisráðuneytið, en hún hafði áður verið aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra. Hún hætti störfum í janúar 2015 og starfar nú í einkageiranum.
Auk þess var, líkt og áður sagði, alþingismanninn Ásmund Einar Daðason aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs í um tvö ár samhliða þingmennsku, og varð þar með fyrsti þingmaður þjóðarinnar til að vera ráðinn aðstoðarmaður ráðherra.