Áætlað er að kostnaður við almennan rekstur ríkisstjórnar Íslands kosti 49,7 prósent meira í ár en hann gerði árið 2012 í krónum talið. Það ár kostaði rekstur ríkisstjórnarinnar, sem felur í sér launagreiðslur til ráðherra og aðstoðarmanna þeirra, 253 milljónir króna. Samkvæmt fjárlögum ársins 2016 er almennur kostnaður við rekstur ríkisstjórnar Íslands áætlaður 378,8 milljónir króna í ár. Því hefur kostnaðurinn aukist í krónum talið um 125,8 milljónir króna frá árinu 2012.
Að teknu tilliti til verðbólgu nemur hækkunin samt sem
áður 118,8 milljónum króna, eða 40,3 prósentum.
Tíu ráðherrar og fjórtán aðstoðarmenn
Alls eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar tíu talsins. Þeir eru sem stendur með fjórtán aðstoðarmenn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er með tvo, þá Matthías Imsland og Jóhannes Þór Skúlason. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er með Svanhildi Hólm Valsdóttur og Teit Einarsson sér til aðstoðar. Sigríður Hallgrímsdóttir og Jóhannes Stefánsson aðstoða Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Ólöf Nordal innanríkisráðherra er einnig með tvo aðstoðarmenn, þær Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur og Kristínu Haraldsdóttur. Það er Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, líka. Honum til aðstoðar eru Benedikt Sigurðsson og Ágúst Bjarni Garðarsson.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hefur sér til aðstoðar Ingveldi Sæmundsdóttur, Sunna Gunnars Marteinsdóttir aðstoðar utanríkisráðherrann Gunnar BragaSveinsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur Ingvar Pétur Guðbjörnsson með sér og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra er aðstoðaður af Ingu Hrefnu Sveinbjarnardóttur. Eygló Harðardóttir er sem stendur með engan aðstoðarmann eftir Matthías Imsland færði sig yfir til Sigmundar Davíðs forsætisráðherra.
Mikil hækkun á fáum árum
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum í landinu vorið 2013. Síðasta heila árið sem fyrri ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sat á valdastóli var kostnaður við almennan rekstur ríkisstjórnar Íslands 253 milljónir króna. Hann hækkaði umtalsvert árið 2013, upp í 338 milljónir króna. Líkast til skipta biðlaun ráðherra og aðstoðarmanna þeirra sem skiluðu lyklunum að ráðuneytunum þá um vorið máli þegar kostnaður ársins 2013 var gerður upp.
Árið 2014 dróst kostnaðurinn aftur saman og var um 280 milljónir króna samkvæmt ríkisreikningi. Í fyrra hækkaði kostnaðurinn hins vegar mjög snarpt á ný og var áætlaður 340 milljónir króna á fjárlögum. Enn bætist við þann kostnað á yfirstandandi ári. Á fjárlögum ársins 2016, sem samþykkt voru skömmu fyrir jól, er kostnaður við almennan rekstur ríkisstjórnarinnar áætlaður 378,8 milljónir króna.