Gisting í glærum kúlum, sjálfvirkar tæknilausnir, álfar og huldufólk er meðal þess sem sprotafyrirtækin tíu sem valin hafa verið til þátttöku í Startup Tourism árið 2016 ætla að bjóða ferðamönnum hér á landi upp á. Viðskiptahraðallinn fer fram í fyrsta sinn í vor en í dag var tilkynnt hvaða hugmyndir fengu þátttökurétt í ár.
Tíu teymi voru valin úr hópi 74 viðskiptahugmynda til að taka þátt í viðskiptahraðlinum sem hefst í byrjun næsta mánaðar. Þessara teyma bíður tíu vikna námskeið, fræðsla og þjálfun í stofnun fyrirtækja og rekstri þeirra.
Að námskeiðunum koma sérfræðingar og lykilaðilar í ferðaþjónustunni og hjálpa sprotafyrirtækjunum að fóta sig og átta sig á tækifærum og rekstargrundvelli hugmynda sinna.
Startup Tourism er á vegum Icelandic Startups sem áður hét Klak Innovit. Hjá Icelandic Startups er haldið utan um íslensku viðskiptahraðlana Startup Reykjavík sem hýsir almenn nýsköpunarfyrirtæki, Startup Reykjavík Energy sem hýsir sprotafyrirtæki í orkugeiranum og Startup Tourism sem er sérstaklega miðaður að ferðaþjónustunni.
Markmiðið með þessum nýja viðskiptahraðli er að efla frumkvöðlastarf innan ferðaþjónustunnar á Íslandi og stuðla að faglegri undirstöðu hjá nýjum fyrirtækjum, segir í tilkynningu. Einnig er markmiðið að ýta undir dreifingu ferðamanna um landið. Í vetur héldu fulltrúar Startup Tourism vinnusmiðjur víða um land þar sem áhugasamir voru hvattir til að þróa hugmyndir sínar áfram og sækja um þátttöku.
„Við erum ekki síst að reyna að miðla þeirri þekkingu sem orðið hefur til á undanförnum árum og áratugum í ferðaþjónustunni,“ segir Oddur Sturluson, verkefnastjóri Startup Tourism. „Það er mikilvægt að efna til umræðu um helstu áskoranir innan greinarinnar.“
Sprotafyrirtækin sem valin voru til þátttöku eru:
- Adventurehorse Extreme sem ætlar að skipuleggja krefjandi kappreið um landið fyrir reynda knapa.
- Arctic Trip vill standa fyrir nýstárlegri ferðaþjónustu á og í kringum Grímsey.
- Bergrisi er að hanna hugbúnaðar- og tæknilausn fyrir þjónustusala svo gera meigi bæði sölu- og afgreiðsluferlið sjálfvirkara.
- Book Iceland er fyrirtæki utan um bókunarkerfi fyrir gistiheimili og smærri hótel.
- Happyworld ætlar að nýta rokið til að bjóða upp á svifíþróttaferðir.
- Health and Wellness býður upp á heilsutengda ferðaþjónustu um Vesturland þar sem hlúð er að líkama og sál.
- Jaðarmiðlun ætlar að kynna álfa og huldufólk á tímamótasýningu sem byggð er á íslenskum sagnaarfi.
- Náttúrukúlur bjóða ferðamönnum upp á gistingu í glærum kúlum þar sem hægt er að upplifa náttúruna og skoða stjörnur og norðurljós.
- Taste of Nature fer með ferðamenn í dagsferðir þar sem íslensk náttúra, matarupplifun og tengsl við heimamenn eru í forgrunni
- Traustholtshólmi býður upp á sjálfbæra dvöl á óspilltri eyju í Þjórsá.