Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að honum lítist alls ekki vel á hugmynd um að gera Landsbankann að samfélagsbanka. Hugmyndin hafi ekki verið rædd við hann af hálfu Framsóknarflokksins né lögð fram í ríkisstjórn. Bjarni segist ekki vita almennilega hvað samfélagsbanki eigi að vera, nema um sé að ræða hugmynd um banka sm sé ekki rekinn með arðsemi að sjónarmiði. „Mér finnst að bankar eiga að vera bankar," sagði Bjarni í Kastljósi kvöldsins.
Á flokksþingi Framsóknarflokksins í fyrravor var samþykkt tillaga um að Landsbankinn yrði áfram í ríkiseigu og myndi starfa sem samfélagsbanki sem hefði ekki það markmið að hámarka arðsemi. Í viðtali við RÚV vegna þessa sagði Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins sem lagði tillöguna fram, að tilgangur samfélagsbanka yrði að reyna „að efla samkeppni á bankamarkaði með því að bjóða góða þjónustu og á góðu verði“.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ræddi samfélagsbankahugmyndina við Viðskiptablaðið í byrjun nóvember. Þar sagðist hann hafa „orðið þess var að menn virðast leggja ólíkan skilning í hvað sé átt við með samfélagsbanka[...]Nú þegar fjármálakerfið losnar úr viðjum slitabúa og hafta er eðlilegt að eigendastefna ríkisins gagnvart bönkunum taki mið af því mikilvæga hlutverki sem bankar gegna í samfélaginu þannig að bankar í eigu ríkisins leggi sitt af mörkum við að bæta þjónustu við viðskiptavini og bjóða þeim samkeppnishæf kjör“.
Í fjárlögum ársins 2016 er gert ráð fyrir að rúmlega 28 prósent hlutur í Landsbankanum verði seldur fyrir 71 milljarð króna.