Fyrir tíu dögum eða svo fengu forstöðumenn danskra ríkisfyrirtækja og stofnana bréf frá Fjármálaráðuneytinu. Sumir þeirra héldu að bréfið væri einskonar fyrirfram 1. aprílgabb, en við nánari athugun kom í ljós að svo var ekki. Þeim var semsé skipað að telja þær utandyraflaggstangir sem undir þeirra stofnun heyra og senda niðurstöður talningarinnar til ráðuneytisins.
Í bréfinu var tilgangur talningarinnar ekki útskýrður og embættismenn neituðu að svara spurningum fjölmiðlanna, slógu úr og í. Fjölmiðlafulltrúi Fjármálaráðuneytisins sagði að stundum væri það svo að almenningur ætti ekki að vita allt, talningin hefði tilgang en ekki yrði upplýst nánar um málið. Að sinni.
Talningartilskipunin vakti athygli langt út fyrir danska landsteina og var frá henni greint í fjölmiðlum víða um lönd. Ótal tilgátur komu fram um tilgang þessarar óvenjulegu tilskipunar sem, að sögn danskra fjölmiðla, á sér hvorki fordæmi né hliðstæðu. Dönsku miðlarnir skírðu þetta Flagstanggate, og skopmyndateiknarar brostu með blýöntum sínum.
Frestur til að skila upplýsingum um flaggastangaeign stofnana og fyrirtækja rann út 11. janúar, ekki hefur verið upplýst hvernig heimtur voru.
Forsætisráðuneytið upplýsir um tilganginn
Í gær sendi Forsætisráðuneytið frá sér tilkynningu til fjölmiðla.
Þar var greint frá því að Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra væri að íhuga (overveje) hvort gera ætti fánadag Færeyja, 25. apríl, og grænlenska fánadaginn, 21. júní, að dönskum fánadögum. Þá yrði færeyski fáninn við hún 25. apríl og sá grænlenski 21. júní. Þegar þessar vangaveltur byrjuðu kom í ljós að engar upplýsingar voru til um fjölda flaggstanga í eigu opinberra stofnana og fyrirtækja í landinu. Þess vegna var ákveðið að senda tilskipunarbréfið. Hvers vegna það var Forsætisráðuneytið sem sendi upplýsingabréfið veit enginn en blaðamaður Politiken giskaði á að það væri gert til að auka trúðverðugleikann. Ef upplýsingabréfið hefði komið frá Fjármálaráðuneytinu hefði fólk kannski haldið að það væri viðbótargrín.
Sumir dönsku fjölmiðlanna hafa lýst vonbrigðum með að búið sé að upplýsa málið. „Þá er þessi gestaþraut úr sögunni,” sagði einn þeirra.