Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn mælist nú 19,5 prósent, samkvæmt nýrri skoðanakönnun um fylgi flokka sem MMR birti í dag. Stuðningur við flokkinn hefur aldrei mælst lægri í skoðanakönnunum MMR né Gallup. Píratar halda hins vegar áfram að sópa til sín stuðningi og fylgi flokksins mælist nú 37,8 prósent. Það hefur aldrei mælst hærra.
Könnunin var framkvæmd dagana 12. til 20. janúar 2016.
Allir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi tapa fylgi á milli kannana, utan Pírata og Vinstri grænna. Framsóknarflokkurinn, sem fékk 24,4 prósent fylgi í síðustu kosningum, mælist nú með tíu prósent fylgi. Samfylkingin mælist með 10,4 prósent fylgi og Björt framtíð með 4,4 prósent, sem myndi ekki duga til að ná manni inn á þing ef kosið væri í dag.
Stuðningur við ríkisstjórnina heldur einnig áfram að dala og mælist nú 30,1 prósent. Hann hefur einungis einu sinni mælst minni á kjörtímabilinu, í júní 2015.
Karlar eru mun líklegri til að styðja Pírata en konur. 44 prósent karla sögðust styðja flokkinn en 29 prósent kvenna. Konur eru hins vegar mun fleiri í stuðningsliði Vinstri grænna. Ungt fólk styður Pírata mun fremur en eldra fólk. Alls segjast 54 prósent fólks á milli 18 og 29 ára að það myndi kjósa Pírata og 40 prósent þeirra sem eru á milli þrítugs og fimmtugs. Einungis fjögur prósent fólks á milli 18 og 29 ára myndu kjósa Samfylkinguna og sex prósent Framsóknarflokkinn. Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn hjá fólki undir þritugu er 15 prósent og hjá fólki milli þrítugs og fimmtugs er hann 16 prósent.
Píratar eru með mest fylgi í öllum tekjuhópum nema þeim efsta. Í tekjuhæsta hópnum, þeim sem er með yfir milljón krónur í tekjur á mánuði, er mestur stuðningur Sjálfstæðisflokkinn.