Helgin var tíðinda- og efnismikil á Kjarnanum sem fyrr.
Eitt stærsta fréttamálið hér heima er Borgunarmálið. Kjarninn greindi frá því á laugardaginn að Landsbankinn vissi að Visa Inc. átti valrétt um kaup á Visa Europe áður en bankinn seldi 31,2% hlut í Borgun árið 2014. Bankinn vissi líka um útrás Borgunar og var með upplýsingar um rekstur fyrirtækisins.
Mikil breyting hefur orðið á þróun ófrjósemisaðgerða á Íslandi. Nú fara miklu fleiri karlar en konur í slíkar aðgerðir, en ástæður þess eru meðal annars opnari umræða og tilkoma neyðarpillunnar.
Kjarninn fór einnig yfir nýjustu skoðanakönnun á fylgi flokkanna í ítarlegri fréttaskýringu um helgina. Þar kemur meðal annars fram að yfir helmingur ungs fólks ætlar að kjósa Pírata, og bæði tekjuháir og tekjulágir aðhyllast flokkinn.
Kári Stefánsson, forstjóri deCODE, er ánægður með viðtökurnar við undirskriftasöfnun hans um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Hann gefur lítið fyrir gagnrýni sjálfstæðismanna.
Umræðan um verðtrygginguna er vonlaus og ekki er mikið talað um hvað á að koma í stað hennar eða hverju afnám hennar eigi að áorka nákvæmlega. Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, fór yfir þetta í leiðara um helgina.
Borgþór Arngrímsson, fréttaritari Kjarnans í Kaupmannahöfn, fór yfir það í fréttaskýringu helgarinnar að samtök lögfræðinga sem gæta hagsmuna útlendinga þar í landi ætla að leita til dómstóla og mögulega Mannréttindadómstóls Evrópu vegna útlendingalöggjafar Dana. Útlendingaumræðan í Danmörku er vægast sagt eldfim þessa dagana.
Sagnfræðingurinn Kristinn Haukur Guðnason skoðaði sögu helstu kvikmyndatónlistarskálda sögunnar, í tilefni af því að Íslendingurinn Jóhann Jóhannsson er nú kominn í þeirra hóp. Kristinn gerði topp 10 lista yfir kvikmyndatónlist á Óskarsverðlaunum.
Og Herdís Sigurgrímsdóttir skrifaði fréttaskýringu sem vakti mikla athygli um helgina um plastið í sjónum. Bráðum verður meira plast en fiskar í sjónum, en Hollendingur sem er rétt af táningsaldri segist vera með lausnina á því. Fólk er farið að trúa honum.