Embætti sérstaks saksóknara ákvað í desember síðastliðnum að ákæra ekki vegna 15 milljarða króna víkjandi láns sem Glitnir veitti Baugi seint á árinu 2007 til að taka þátt í hlutafjárútboði FL Group, stærsta eiganda bankans. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest.
Í kjölfarið ákvað slitastjórn Glitnis að fella niður skaðabótamál sem hún hafði höfðað gegn níu fyrrum stjórnarmönnum og stjórnendum bankans. Slitastjórnin taldi samkvæmt stefnu að veiting lánsins hefði skapað 6,5 milljarða króna tjón fyrir bankann, en ákvað að halda málarekstrinum ekki áfram eftir að niðurstaða sérstaks saksóknara lá fyrir. Allir hina stefndu utan eins samþykktu að greiða málskostnað sinn sjálfir gegn því að málið myndi niður falla. Þorsteinn M. Jónsson, sem áður var oftast kenndur við Kók, hyggst láta reyna á hvort hann þurfi að greiða kostnað fyrir dómi. Þorsteinn var stjórnarformaður Glitnis þegar víkjandi lánið var veitt.
Ákvörðun um lánveitinguna ekki umboðssvik
Í janúar 2012 stefndi slitastjórn Glitnis Lárusi Welding, fyrrum forstjóra Glitnis, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, fyrrum aðaleiganda Baugs og Glitnis, og allri stjórn Glitnis vegna 15 milljarða króna víkjandi lánsins sem Glitnir veitti Baugi í lok árs 2007 til að taka þátt í hlutafjárútboði FL Group. Í stjórn Glitnis á þessum tíma sátu Þorsteinn M. Jónsson sem var stjórnarformaður, Skarphéðinn Berg Steinarsson, Pétur Guðmundarson, Björn Ingi Sveinsson, Haukur Guðjónsson og Katrín Pétursdóttir.
Þegar lánið var veitt var Baugur stærsti eigandi FL Group og FL Group og tengdir aðilar voru langstærstu eigendur Glitnis. Víkjandi lán víkja fyrir öðrum kröfum. Þ.e. fyrst eru aðrar skuldir Baugs greiddar áður en að víkjandi lán eru greidd. Ljóst er reyndar að flestir kröfuhafar Baugs fara brendir frá því að hafa lánað félaginu. Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að einungis sé gert ráð fyrir því að um sjö milljarðar króna fáist upp í um 240 milljarða króna kröfur á félagið, eða 2,9 prósent af samþykktum kröfum. Lánið sem Glitnir veitti Baugi var fært í skuldabréfaform og síðan selt. Glitnir og sjóðir í stýringu hans keyptu stóran hluta skuldabréfanna.
Við fyrirtöku skaðabóðamálsins í nóvember 2013 lagði lögmaður slitastjórnar Glitnis fram beiðni um frestun málsins vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á sama sakarefni. Þar kom fram að slitastjórnin hefði sent sérstökum saksóknara tilkynningu þann 11. apríl 2013 um það sem gerðist á stjórnarfundi í Glitni 18. desember 2007, þegar 15 milljarða króna víkjandi lánið til Baugs var samþykkt. Slitastjórn Glitnis taldi að fjárfestingaákvörðunin væri umboðssvik. Sérstakur saksóknari staðgesti með bréfi til slitastjórnarinnar, dagsett. 14. nóvember 2013, aðmálið væri til rannsóknar en rannsóknin væri á byrjunarstigi.
Skaðabótamálinu var því frestað síðla árs 2013 þar til að niðurstaða í rannsókn sérstaks saksóknara lægi fyrir. Embættið komst að þeirri niðurstöðu í desember 2015 að ekki væri tilefni til að ákæra í því.
Endalok slita Glitnis nálgast
Í kjölfarið tók slitastjórn Glitnis þá ákvörðun að ekki væri forsvaranlegt að halda áfram málarekstrinum sem staðið hafði yfir gagnvart níumenningunum.
Nauðasamningur Glitnis hefur þegar verið samþykktur af héraðsdómi Reykjavíkur og búið hefur fengið undanþágu frá Seðlabankanum um að greiða til kröfuhafa sinna og ljúka slitum sínum. Það mun gerast strax og hægt verður að greiða ríkinu þau stöðugleikaframlög sem kröfuhafar Glitnis hafa samþykkt að greiða, meðal annars Íslandsbanka. Ekki hefur verið hægt að greiða framlögin til þess vegna þess að ríkið er ekki tilbúið með félag til að taka við þeim. Lög til að heimila tilbúning slíks félags eru nú í meðferð Alþingis.