Fjöldi herbergja sem auglýst eru til leigu á Íslandi á vef Airbnb.com hefur tvöfaldast á undanförnu ári. Í svari Airbnb-leiguvefsins til Túrista.is segir að nú sé þar að finna 3.903 auglýsingar fyrir íslensk gistirými. Samanborið við sama tíma í fyrra þá er um að ræða 124 prósent aukningu en þá voru auglýsingarnar rúmlega 1.700. Mikil aukning hefur orðið í vetur því í október voru auglýsingarnar aðeins 3.547 á vef Airbnb.
Fjöldi hótelherbergja hefur einnig aukist en þó ekki eins hratt. Á síðasta ári opnaði til dæmis stærsta hótel landsins, Fosshótel í Þórunnartúni en þar eru 320 herbergi. Alls bjóst Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, við að um 800 hótelherbergi yrðu tekin í notkun á árinu 2015. Þá standa enn yfir framkvæmdir við nokkur stór hótel í miðborg Reykjavíkur. Þar má til dæmis nefna Icelandair Hotel á Hljómalindarreitnum svokallaða þar sem verða 142 herbergi. Fleiri stórar hótelbyggingar eru áætlaðar. Á reitnum vestan við Hörpu á til dæmis að byggja 250 herbergja Marriot-hótel sem á að opna árið 2019.
Þrátt fyrir þessa miklu aukningu á framboði hótelherbergja benda hagtölur hins vegar til þess að nýting þeirra sé að aukast. Á árunum 2010 til 2014 óx framboð hótelherbergja um 28 prósent miðað við 111 prósent aukningu ferðamanna sem komu hingað til lands. Nýtingingin er einnig að verða jafnari yfir árið, samkvæmt umfjöllun Greiningardeildar Arion banka síðan í ágúst í fyrra.
Kannanir sýna að ekki er rétt að bera saman fjölda auglýsinga á Airbnb og fjölda hótelherbergja. Nýting hótelherbergja er mun meiri en gistirýma á gistingavefjum á borð við Airbnb sem eru jafnvel í útlegu aðeins fáeina daga á ári. Í Danmörku hefur Airbnb til dæmis komist að því að hver gistikostur er aðeins í boði í um 22 daga á ári. Þá eru leigumöguleikarnir ekki endilega sambærilegir; á Airbnb má finna heilar íbúðir, sumarhús eða stök herbergi til leigu.
Engar sérstakar reglur gilda um Airbnb-íbúðir og herbergi á Íslandi en frumvarp til laga um þessa gerð ferðaþjónustu hefur verið í undirbúningi í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu síðustu misseri og er búist við að það verði lagt fram á Alþingi á yfirstandandi þingi. Í skýrslu sem gerð var fyrir ráðuneytið um deilihagkerfi um gistirými kemur fram að tæplega 90 prósent allra þeirra sem leigja út íbúðir eða herbergi í Reykjavík geri það án tilskilinna leyfa. Tekjutap Reykjavíkurborgar vegna þessa hleypur á um 600 milljónum króna því samkvæmt lögum þarf að greiða áttföld fasteignagjöld af heimagistingum.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur áður lagt fram frumvarp um breytingar á lögum sem varða gistiþjónustur á borð við þá sem veitt er á Airbnb.com. Það frumvarp náði ekki fram að ganga en þar var lagt til að heimagistingar yrðu flokkaðar öðruvísi og leyfisveitingar einfaldaðar svo fólk geti leigt eignir sínar í allt að átta vikur án þess að afla viðurkenningar frá stjórnvöldum.