Ísland er spilltasta land Norðurlandanna samkvæmt lista Transparency International fyrir árið 2015. Samtökin reikna út sérstaka spillingavísitölu fyrir 168 lönd og raðar þeim síðar upp í lista þar sem minnst spillta landið situr í fyrsta sæti en það spilltasta í 168 sæti. Ísland situr nú í 13. sæti með alls 79 stig. Um er að ræða markverða breytingu frá árunum 2005 og 2006 þegar Ísland var í 1. sæti listans, og þar með minnst spillta landið sem úttektin náð til, með 95 til 97 stig.
Nú verma nágrannalöndin Danmörk, Finnland og Svíþjóð efstu sætin þrjú og Noregur er í 5. sæti. Á Norðurlöndunum skynjast því mest spilling á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gagnsæi- samtökum gegn spillingu, sem eru aðilar að Transparency International.
Leiðin legið hratt niður á við hjá Íslandi
Spillingarvísitala Transpareny International er byggð á áliti sérfræðinga sem og almennri skynjun á spillingu í opinberum stofnunum og stjórnsýslu. Þau lönd sem fá hæsta einkunn eiga það sameiginlegt að þar er stjórnsýsla opin og almenningur getur dregið stjórnendur til ábyrgðar. Lægstu einkunnir fá lönd þar sem mútur eru algengar, refsileysi ríkir gagnvart spillingu og opinberar stofnanir sinna ekki hlutverki sínu í þágu borgaranna.
Síðastliðin átta ár hefur leiðin legið hratt niður á við hjá Íslandi og árið 2013 féll 80 stiga múrinn þegar Ísland lenti í 12. sæti, með aðeins 78 stig. Aðferðafræði Transparency International sækir upplýsingar sínar til allt að 12 mismunandi greiningarfyrirtækja og stofnana er sérhæfa sig í rannsóknum á stjórnarfari og stjórnunarvísum í löndum heims. Hvað Ísland varðar voru notaðar fimm gagnauppsprettur og var einkunnagjöf þeirra: 87, 83, 65, 89 og 73.
Norður Kórea og Sómalía spilltustu löndin
Í tilkynningu frá Gagnsæi vegna birtingar talnanna segir að spillingarvísitalan nái að þessu sinni yfir 168 lönd og hlutu 2/3 þeirra 50 stig eða færri. Stigaskalinn nær frá 0, sem þýðir “mjög spillt”, upp í 100, sem þýðir “mjög lítið eða ekkert spillt”, Danmörk lenti í efsta sæti og er því talin minnst spillta land heims annað árið í röð, en Norður Kórea og Sómalía lentu í neðstu sætunum með aðeins átta stig hvort. „Efstu ríkin eiga það sameiginlegt að þar er fjölmiðlafrelsi; gott aðgengi að fjárlagaupplýsingum svo að almenningur viti hvaðan peningarnir koma og í hvað þeim er varið; sýnd heilindi í starfi þeirra sem fara með almennt vald; dómskerfi sem dregur fólk ekki í dilka eftir ríkidæmi eða fátækt og starfar ennfremur algjörlega sjálfstætt gagnvart löggjafarog framkvæmdavaldinu. Löndin sem hafna neðst á listanum eiga það aftur á móti sameiginlegt að þar geisa oftar styrjaldir, stjórnskipan er veik, dómskerfið slakt og fjölmiðlar ósjálfstæðir. Þau lönd sem hafa lækkað mest á undanförnum 4 árum eru Líbýa, Ástralía, Brasilía, Spánn og Tyrkland. Aftur á móti hafa Grikkland, Senegal og Bretland bætt sig mest.“