Stefnt er að því að lækka tryggingjagjald í áföngum um 0,5 prósent á þessu ári. Fyrsta skerfið til lækkunar verður stigið snemma í febrúar. Lækkunin gæti þýtt yfir fjögurra milljarða króna lækkun í álögum á atvinnulífið á þessu ári. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun. Þar segir einnig að ríkisstjórnin hafi á tveimur síðustu fundum sínum fundað um með hvaða hætti stjórnvöld geta komið að því að tryggja að gerðir kjarasamningar haldi. Fundirnir voru í gær og á föstudag.
Í Morgunblaðinu segir að ríkisstjórnin hafi gefið Samtökum atvinnulífsins fyrirheit um að lækka tryggingagjaldið á meðan að nýlega undirritaðir kjarasamningar gilda, sem er til ársins 2018. Umrædd lækkun verður þó ekki fest í lög þar sem ríkisstjórnin vill geta tekið frekari skref til lækkunar á gjaldinu. Verður þá horft til aðstæðna í þjóðfélaginu hverju sinni.
Tryggingagjaldið hefur hækkað mjög á undanförnum árum. Það var 5,35 prósent árið 2007 og fór hæst í 8,67 prósent árið 2010. Nú er gjaldið 7,35 prósent og stefnt er að því að lækka það niður í 6,85 prósent í lok árs 2016. Árið 2014 greiddu launagreiðendur samtals 75 milljarða króna í tryggingagjald.