Píratar mælast með tæplega 42 prósent fylgi í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Það er í fyrsta sinn sem fylgi flokksins mælist yfir 40 prósent og samkvæmt þeirri niðurstöðu yrði hann langstærsti flokkur landsins. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu. Píratar hafa nú mælst með yfir 30 prósent fylgi í nær öllum skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í heilt ár.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist næst stærsti flokkur landsins með 23,2 prósent fylgi. Það er ívið meira en hann mældist með í könnun MMR sem birt var í síðustu viku, en þá mældist fylgi flokksins undir 20 prósentum. Það var lægsta fylgi sem flokkurinn hafði nokkru sinni mælst með. Í síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 3, sem gerð var 10. og 11. nóvember 2015, mældist fylgi flokksins 29,3 prósent.
Það blæs ekki byrlega fyrir Bjartri framtíð samkvæmt skoðanakönnuninni. Einungis 1,6 prósent aðspurðra sögðust ætla að kjósa flokkinn. Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri græn mælast öll með um tíu prósent fylgi.
Könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 var gerð þannig að hringt var í 1.158 manns þar til náðist í 801 dagana 26. og 27. janúar. Svarhlutfallið var 69,2 prósent. Þátttakendur voru valdir með lagskiptu slembiúrtaki úr þjóðskrá. Alls tók 56,1 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.
Önnur könnunin á viku
Skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 er önnur fylgiskönnunin sem birt er á innan við viku. Á föstudag kom ný skoðanakönnun um fylgi flokka frá MMR. Samkvæmt henni mældist stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn nú 19,5 prósent. Stuðningur við flokkinn hefur aldrei mælst lægri í skoðanakönnunum MMR né Gallup. Fylgi Pírata mældist 37,8 prósent og hafði aldrei mælst hærra. Könnunin var framkvæmd dagana 12. til 20. janúar 2016.
Allir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi töpuðu fylgi á milli kannana MMR, utan Pírata og Vinstri grænna. Framsóknarflokkurinn, sem fékk 24,4 prósent fylgi í síðustu kosningum, mældist nú með tíu prósent fylgi, Samfylkingin, með 10,4 prósent fylgi og Björt framtíð með 4,4 prósent, sem myndi ekki duga til að ná manni inn á þing ef kosið væri í dag.
Stuðningur við ríkisstjórnina heldur einnig áfram að dala og mælist nú 30,1 prósent. Hann hefur einungis einu sinni mælst minni á kjörtímabilinu, í júní 2015.