Grein Oddnýjar Helgadóttur vakti verðskuldaða athygli um helgina þar sem hún segir frá reynslu sinni af íslenska heilbrigðiskerfinu og ber það saman við það rúmenska, sem hún hefur einnig kynnst, en maðurinn hennar er Rúmeni.
„Staðreyndin er sú að þegar þróun í þessa átt er einu sinni farin af stað er mjög erfitt að snúa henni við. Það eru takmörk fyrir því hvað heilbrigðisstarfsmenn láta bjóða sér. Það er ekki boðlegt að fólkið sem vinnur við að lækna, líkna og hlúa að okkur hinum búi við heilsuspillandi vinnuaðstæður, ómanneskjulegt álag og virðingarleysi þeirra sem eru við stjórnvölinn.”
Úthlutun listamannalauna hefur verið ofarlega á baugi undanfarnar vikur eftir að listinn fyrir 2016 var gerður opinber. Töluverð umræða skapaðist í kring um Andra Snæ Magnason rithöfund, sem hefur verið á listamannalaunum undanfarin tíu ár.
Kjarninn tekur reglulega saman tíu staðreyndir um ákveðin málefni sem eru í deiglunni, eins og kvótaflóttamenn, Borgun og ÁTVR. Listamannalaunin fyrir valinu um helgina. Þau ættu að varpa skýrara ljósi á þessa aldagömlu hefð, að ríkið styrki listamenn í störfum þeirra. Til dæmis kemur fram að Alþingi veitti fyrstu skáldalaunin árið 1891 og lagði þannig grunninn að reglulegum styrkveitingum.
Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra, deilir skýringunni á Facebook síðu sinni þar sem hann bætir við að listamannalaunin voru tekin út úr flokkspólitískum farvegi 1990 í hans tíð sem menntamálaráðherra. „Áður kaus Alþingi úthlutunarnefnd listamannalauna. Hins vegar eru heiðurslaunin enn í flokkspólitískum farvegi alþingis en þau eru lítill hluti allra listamannalauna. Því þarf hins vegar að breyta; eðlilegra væri að heiðurslaunin væru líka hluti listamannalaunanna með skýrum hætti,” segir Svavar á Facebook.
Spennan magnast í bandarískum stjórnmálum og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir er að fylgjast með gangi mála úr návígi í New York. Allt stefnir í tvísýna baráttu hjá demókrötum og Bryndís ber saman kosningabaráttu þeirra og repúblikana og segir meðal annars: „Í sambanburði við frambjóðendur repúblikana eru frambjóðendur Demókrataflokksins eins og vel uppalin börn í skólabúning sem fara alltaf rakleiðis í boltann en aldrei manninn eins og góðra stjórnmálamanna er siður, þó að það sé sjaldséð nú til dags.”
Í Bakherbergi Kjarnans var velt upp þeirri einstöku stöðu sem komin er upp innan Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn mælist nú með sögulega lágt fylgi og lítil sem engin umræða er um Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann flokksins, og hvort hann eigi að íhuga stöðu sína. Í Bakherberginu var rætt að sjálfstæðismenn séu væntanlega ekki tilbúnir að sætta sig við að mælast með um 20 prósenta fylgi í könnunum, en líklegasta skýringin fyrir því að engin umræða sé um stöðu Bjarna sé sú að það sé einfaldlega enginn sem hafi hag af því lengur því það sé enginn nægilega sterkur til að fara fram á móti honum.
Kjarninn greindi frá því fyrir helgi að ríkisstjórnin hafi ákveðið að styrkja gerð heimildarmyndar um flóttamenn á Íslandi um 3 milljónir. Um helgina kom svo í ljós að utanríkisráðuneytið hafði líka styrkt myndina um 3 milljónir áður, er RÚV greindi frá. Framleiðandi myndarinnar er Árni Gunnarsson, fyrrverandi formaður Flóttamannaráðs og fyrrverandi aðstoðarmaður Páls Péturssonar, ráðherra Framsóknarflokks, og einnig fyrrverandi varaþingmaður Framsóknarflokks. Kolbrún Halldórsdóttir, forseti Bandalags íslenskra listamanna og fyrrverandi ráðherra VG, setur spurningamerki við styrkveitingu ríkisstjórnarinnar sem hún segir orka tvímælis.