Nýr þáttur hóf göngu sína í Hlaðvarpi Kjarnans í dag. Í Útvarpi Ísafirði fjalla þau Gylfi Ólafsson, Tinna Ólafsdóttir og Þorsteinn Másson um fregnir af landsbyggðinni í víðum skilningi. Fyrsti þátturinn fór í loftið í hlaðvarpsstraumnum í dag og verður þátturinn á dagskrá á mánudögum í vor.
„Við Gylfi ánetjuðumst hlaðvarpsþáttum þegar við bjuggum í Svíþjóð og höfum lengi haft það bak við eyrað að gaman væri að gera eigin þætti,“ segir Tinna. „Við vildum þó ekki gera það nema hafa skýrt þema og við köstuðum allskyns hugmyndum fram sem voru slegnar jafn fljótt út af borðinu.“
Þau áttuðu sig á endanum á því að eðlilegast væri að tala um það sem stæði hjarta þeirra næst. „Útvarp Ísafjörður fjallar því um byggðamál í víðasta skilningi þess orðs, bæði stór mál og smá sem vekja athygli okkar og eiga það sameiginlegt að tengjast landsbyggðinni,“ segir Tinna enn fremur. „Þegar við vorum dottin niður á efni kom ekki annað til greina en að fá Steina til að vera með okkur enda er hann snjall, fróður um flest og hnyttinn í tilsvörum.“
Þátturinn er framleiddur á þremur stöðum og samtalið tekið upp með hjálp nýjustu tækni. Gylfi og Tinna eru í Reykjavík og Þorsteinn í Bolungavík. Í fyrsta þættinum ræddu þau nær eingöngu alíslenska hluti á borð við öryggi sjómanna, gönguskíðaiðkun sem meðal við aldurskrísu, amerískar stórmyndir á Akranesi og karp um byggðastefnu sveitarfélaga.
Meðal annars eru hugmyndir Úlfars Ágústssonar, verslunarmanns, rifjaðar upp í þessum fyrsta þætti en hann lagð til fyrr á þessari öld nýja skipan byggðamála á Vestjörðum. Landshlutinn hafði þá verið í vörn í byggðalegu tilliti í alltof langan tíma og þyrfti að fara að gera sér grein fyrir styrkleikum sínum og veikleikum. Úlfar lagði því til að Ísafjörður og þorpin í kringum Ísafjörð þyrftu að setja sér markmið og þrengja fókusinn.
Svo nefnd séu hér nokkur dæmi þá ætti Ísafjörður að vera þjónustukjarninn samkvæmt hugmyndum Úlfars, Suðureyri ætti að nýta sína helstu styrkleika sem eru stuttar vegalengdir á miðin og gott smábátalægi í höfninni og Þingeyri ætti að verða sumardvalarstaður. Styrkleikar Þingeyrar eru nálægð við vestfirsku alpana og mikil náttúrufegurð. Nánar er rætt um hugmyndirnar í þættinum. Hægt er að hlusta í spilaranum hér að neðan.