Kári hrinti fyrir nokkru af stað undirskriftasöfnun þar sem hann hvetur Íslendinga til þess að styðja kröfu sína um að ellefu prósentum af landsframleiðslu verði árlega varið til heilbrigðiskerfisins. Á meðal þeirra sem hafa tekið þátt í baráttu Kára með því að koma skilaboðunum áleiðis í gegnum myndbönd sem birt eru á vefnum endurreisn.is eru Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, Magnús Karl Magnússon, prófessor og forseti læknadeildar Háskóla Íslands, og Tómas Guðbjartsson, prófessor og skurðlæknir. Alls hafa rúmlega 55 þúsund manns skrifað undir áskorun Kára.
Segir stefnu ríkisstjórnarinnar samhljóða sinni
Kári segir í grein sinni í dag að þegar hann hafi hafið undirskriftasöfnunina þá taldi hann sig frumlegan. „Það var svo fyrir nokkrum dögum að mér var bent á að krafan sem ég er að biðja landsmenn að skrifa undir er næstum samhljóða yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar. Sú stefna var sett saman sem hluti af samningi ríkisins við lækna og var undirrituð í desember 2014. Ég verð því að viðurkenna að ég var einfaldlega að apa eftir ríkisstjórninni nema ég fylgi fordæmi Newtons og haldi því fram að ég hafi verið fyrri til þótt ég hafi verið seinni til sem yrði að byggjast á því að tíminn sé ekki línulegur heldur hringlaga.
Ekkert að marka ríkisstjórnina
Kári nefnir dæmi um muninn á því sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir og gerir í heilbrigðismálum sé hægt að sækja í gerð fjárlaga fyrir árið 2016. „Undir lokin var tekist á um það hvort það ætti að veita því fé til Landspítalans að það væri hægt að reka hann á svipaðan máta og 2015, ekki bæta hann heldur halda í horfinu. Það var tekist á um það hvort það ætti að reka hann í þeim lamasessi sem hann var búinn að vera í um hríð eða láta honum hnigna enn meira. Það var mat þeirra sem stjórna sjúkrahúsinu að það þyrfti 2,5 milljarða króna í viðbót til þess að ná því markmiði. Þegar málið kom á borð fjármálaráðherra féllst hann ekki á að bæta við meira en helmingi af upphæðinni. Því var auðvitað haldið fram að það væru ekki til peningur fyrir meiru.
Nokkrum dögum eftir að fjárlög voru samþykkt lét fjármálaráðherra hafa það eftir sér að það yrði 300 milljarða króna afgangur af ríkisfjármálum fyrir árið 2016? Það er sem sagt ekkert að marka það sem núverandi ríkisstjórn segir um vilja sinn til þess að hlúa að heilbrigðiskerfinu og því miður hefði mátt segja hið sama um margar af þeim ríkisstjórnum sem á undan henni þjónuðu þessu landi."