Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur verið í Líbanon í tvo daga að kynna sér aðstæður flóttamanna í landinu. Dagskráin hefur verið þétt síðan í gærmorgun, að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns hans. Hann heldur svo til London í fyrramálið.
Í gær hitti Sigmundur Davíð framkvæmdastjóra líbanska Rauða krossins og heimsótti eins konar heilsugæslu á hjólum, sem er verkefni sem Rauði krossinn á Íslandi hefur tekið þátt í. Þá fundaði hann með forsætisráðherra Líbanon og forseta þingsins. Eftir það fór hann í flóttamannabúðir fyrir Palestínuflóttamenn sem reknar eru af Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna.
Umdeilt snapp
Forsætisráðherra hefur verið virkur á Snapchat undanfarið og í seinnipartinn í gær sendi hann snapp af raflínum sem eru vægast sagt illa frágengnar. Sigmundur Davíð sló á létta strengi í snappinu og skrifaði: „Lofaði að skila því að það vantar rafvirkja til Shatila.”
Myndin hefur vakið nokkuð hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum í morgun þar sem forsætisráðherra er sakaður af nokkrum, sérstaklega stjórnarandstöðufólki, um ósmekklegheit og taktleysi.
Fundar í London á morgun
Í morgun heimsótti Sigmundur Davíð Flóttamannastofnun SÞ og fékk kynningu hjá þeim. Að því loknu skoðaði hann flóttamannabúðir fyrir sýrlenska flóttamenn, sem eru yfirfullar. Upphaflega voru þær reistar fyrir þrjú til fjögur þúsund manns, en að sögn stjórnvalda er fjöldinn nú að nálgast 20.000.
Sigmundur Davíð fer til London í fyrramálið þar sem hann sækir fund með breskum, þýskum, kúveitskum og norskum fulltrúum þar sem flóttamannavandinn verður ræddur. Fundurinn er að sögn Jóhannesar haldinn til að kalla eftir framlögum til aðstoðar í Sýrlandi og til að ræða með hvaða hætti sé hægt að vinna að uppbyggingu á svæðunum.