Fylgi Sjálfstæðisflokksins er komið aftur upp fyrir 20 prósent samkvæmt nýrri skoðanakönnum MMR. Það mælist nú 21,1 prósent. Í síðustu könnun fyrirtækisins var það 19,5 prósent sem er minnsta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í sögunni. Sjálfstæðisflokkurinn er enn töluvert langt frá kjörfylgi sínu, en hann fékk 26,7 prósent atkvæða í kosningunum 2013. Framsóknarflokkurinn bætir einnig við sig frá síðustu könnun og mælist nú með 12,2 prósent fylgi. Hann mældist með tíu prósent í könnun MMR sem gerð var í janúar og fékk 24,4 prósent í síðustu kosningum. Stuðningur við ríkisstjórnina eykst um þrjú prósentustig og er nú 33,2 prósent.
Píratar mælast með 35,6 prósent fylgi sem er aðeins minna en þeir mældust með í janúar. Þá mældist stuðningur við þá 37,8 prósent.
Samfylkingin fer nærri meti sínu í litlu fylgi og mælist nú með 9,4 prósent stuðning. Það er einungis 0,1 prósentustigi meira en sögulegur botn hennar í könnunum MMR, en honum var náð í júní 2015 þegar fylgið mældist 9,3 prósent. Samfylkingin fékk 12,9 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum sem var langversti árangur flokksins frá stofnun. Í gær fór þingmaður flokksins fram á að landsfundi flokksins yrði flýtt og þar með formannskosningu. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt að hann sé ekki mótfallinn því.
Fylgi Vinstri grænna dregst saman á milli kannana. Nú segjast ellefu prósent aðspurðra styðja flokkinn en fylgið mældist 12,5 prósent í síðustu könnun. Vinstri græn fengu 10,9 prósent atkvæða í síðustu kosningum þannig að stuðningur flokksins er við kjörfylgi.
Björt framtíð stendur í stað frá síðustu könnun með sitt 4,4 prósent fylgi, sem nægir ekki til að koma manni inn á þing. Í dag er flokkurinn með sex þingmenn eftir að hafa fengið 8,2 prósent atkvæða í kosningunum 2013.
Könnunin var framkvæmd dagana 27. janúar til 1. febrúar 2015 og var heildarfjöldi svarenda 984 einstaklingar, 18 ára og eldri. Allar niðurstöður hafa einhver vikmörk sem miðað við 1000 svarendur geta verið allt að +/-3,1 prósent. Það þýðir að líklegt sé að raunverulegt fylgi viðkomandi flokks, eða þess sem mælt er, sé einhversstaðar á bili sem er 3,1 prósent hærra eða lægra en niðurstaða könnunarinnar gefur til kynna.