Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið ráðinn til starfa hjá Miðopnu, útgáfufélagi Fréttatímans. Hann mun stýra uppbyggingu félagsins á vefnum. Frá þessu greinir Gunnar Smári Egilsson, útgefandi og annar ritstjóri Fréttatímans, í stöðuuppfærslu á Facebook. Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Óskar Hrafn starfar hjá Fréttatímanum. Hann var á meðal sem komu að stofnun blaðsins, var eigandi að hlut í því og starfaði sem fréttastjóri fram á sumarið 2012.
Óskari Hrafni var sagt upp störfum hjá 365 í lok síðasta árs, en þar starfaði hann síðast sem yfirmaður íþróttadeildar. Hann hafði þá starfað hjá fyrirtækinu í um eitt og hálft ár. Óskar Hrafn starfaði áður lengi sem fréttastjóri Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar en hætti störfum sem slíkur í maí 2010.
Hann bætist nú í mikið breyttan stjórnendahóp hjá Fréttatímanum. Í lok nóvember var tilkynnt að Gunnar Smári Egilsson, fyrrum ritstjóri Fréttablaðsins, leiði hóp sem hefði keypt allt hlutafé í Miðopnu, eiganda Fréttatímans. Gunnar Smári er útgefandi blaðsins og annar ritstjóri þess ásamt Þóru Tómasdóttur. Í desember var Þóra Kristín Ásgeirsdóttir síðan ráðin sem fréttastjóri Fréttatímans.
Á meðal annarra eigenda eftir kaupin á Fréttatímanum, auk Gunnars Smára, eru fjárfestarnir Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurður Gísli Pálmason. Valdimar Birgisson var áfram í eigendahópnum.