Reykjanesbær hefur gefið
lánadrottnum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar (EFF), sem er í eigu bæjarins,
frest þar til á morgun, 5.febrúar, til afskrifa milljarða skuldir
sveitarfélagsins. Verði þeir afarkostir ekki samþykktir muni Reykjanesbær óska
eftir því við innanríkisráðuneytið að það skipi fjárhaldsstjórn yfir
sveitarfélaginu. Sú fjárhaldsstjórn tæki þá yfir stjórn fjármála Reykjanesbæjar.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir að Reykjanesbær fari fram á að 6,8 milljarðar króna af skuldum sveitarfélagsins við kröfuhafa þess verði afskrifaðar. Þær eru að langmestu leyti skuldir EFF. Lánadrottnarnir eru hins vegar ekki tilbúnir til að afskrifa nema 5,1 milljarð króna. Stærstu lánadrottnar EFF eru innlendir bankar, Íslandsbanki, Landsbankinn og þrotabú Glitnis. Krafa Glitnis hefur verið afhend íslenska ríkinu sem hluta af stöðugleikaframlagi þess.
Bréf sem sent var kröfuhöfum var samþykkt á bæjarráðsfundi á föstudag, fyrir sex dögum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn því að senda bréfið.
Ótrúlegar skuldir
Reykjanesbær, er eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins. Skuldir þess voru tæplega 41 milljarður króna í lok árs 2014. Skuldirnar eru rúmlega 250 prósent af reglulegum tekjum sveitarfélagsins en samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 þá er leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar er því beinlínis í andstöðu við lög. Til viðbótar eru skuldir EFF um átta milljarðar króna og Reykjanesbær er í ábyrgð fyrir skuldum Reykjaneshafnar, sem skuldar rúma sjö milljarða króna, aðallega vegna uppbyggingu Helguvíkurhafnar. Tekjur á móti þeim skuldum sem stofnað var til hjá Reykjaneshöfn eru litlar en reiknað var með að þær myndu að mestu leyti koma frá stóriðju sem átti að byggjast upp á svæðinu og nýta þjónustu hafnarinnar. Þau stóriðjuáform hafa enn sem komið er ekki orðið að veruleika.
Kjarninn greindi frá því 3. október að Reykjaneshöfn hefði formlega óskað eftir fjármagni frá Reykjanesbæ til að geta staðið við greiðslur lána sem voru á gjalddaga 15. október 2015. Á meðal þess sem höfnin þurfti að greiða af voru tveir skuldabréfaflokkar. Þetta kom fram í tilkynningu til Kauphallar, en umrædd skuldabréf eru skráð þar. Í tilkynningunni sagði einnig: „Vegna yfirstandandi vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar er óvissa um möguleika Reykjanesbæjar til að fjármagna greiðslurnar. Því getur komið til greiðslufalls á skuldbindingum Reykjaneshafnar.“ Reykjaneshöfn óskaði eftir, og fékk, greiðslufresti þegar ljóst var að hún gat ekki greitt ofangreindar greiðslur. Sá frestur hefur verið framlengdur nokkrum sinnum síðan.
Mun verri afkoma en lagt var upp með
Í október síðastliðnum var útkomuspá Reykjanesbæjar fyrir árið 2015 birt í Kauphöllinni. Samkvæmt henni yrði samandregin rekstrarniðurstaða neikvæð um 716 milljónir króna á árinu, sem er um 300 milljónum krónum verra en áætlanir gerðu ráð fyrir. A-hlutinn, sem er grunnrekstur sveitarfélagsins, myndi verða rekinn með 725 milljóna króna tapi, en áætlanir gerðu ráð fyrir 514 milljón króna tapi. Samanlagaður rekstur A- og B-hluta, sem er aðallega Reykjaneshöfn og Fasteignir Reykjanesbæjar (m.a. EFF), myndi verða rekinn með 716 milljón króna tapi en áætlanir höfðu gert fyrir að tapið yrði 411 milljónir krona.