Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segist telja að Píratar og Sjálfstæðisflokkur geti klárlega átt samleið í ríkisstjórn. „Píratar eru með stefnumál, en þau eru alveg „50/50“ vinstri og hægri. En í þessum grunnmálum erum við alveg á svipaðri línu.“ Þetta segir Vilhjálmur í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag.
Vilhjálmur segir uppgang Pírata vera ákall þjóðarinnar um að breyta kerfinu, sem sé eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf talað um. „Ég segi bara að Pírötum hefur tekist að gera stefnumálin okkar skýr og njóta góðs af því. Þetta er bara ákall sem ég er tilbúinn að taka þátt í með Pírötum að nái fram að ganga. Aukið gagnsæi og að kerfið sé einfaldað. Við skulum ekki gleyma því hver kom á stjórnsýslulögum og upplýsingalögum. Það var Davíð Oddsson. Hvað annað í opinberri stjórnsýslu hefur aukið gagnsæi meira og bætt vinnubrögð innan stjórnsýslunnar?“
Vilhjálmur segir í viðtalinu að hinn almenni sjálfstæðismaður og þingflokkur flokksins hafi áhyggjur af þeirri stöðu sem flokkurinn er í samkvæmt könnunum, en fylgi flokksins mælist nú rúmlega 21 prósent. Á sama tíma mælist fylgi Pírata reglulega á bilinu 35 til 40 prósent. Líta þurfi í eigin barm og sjá hvað sé hægt að gera betur en að aðalatriðið sé að halda sig við stefnu Sjálfstæðisflokksins og kynna hana fyrir fólki. „Að fólk viti fyrir hvað við stefnum, hver grunngildi okkar eru og að við séum að fylgja þeim. Af því að sjálfstæðisstefnan mun alltaf standa fyrir sínu. Fólk þarf bara að hafa trú á því að við séum að fara eftir henni.“
Hann segir engan einn bera ábyrgð á stöðu flokksins samkvæmt könnunum. Forysta Sjálfstæðisflokksins hafi staðið sig vel en góður árangur flokksins hafi ekki komist nógu skýrt í gegn.