Demókratinn Bernie Sanders og repúblikaninn Donald Trump voru sigurvegarar kosninganna í New Hampshire í gær, sem voru hluti af forvali flokkanna fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Sanders fékk tæplega 60 prósent fylgi á meðan Hillary Clinton fékk tæplega 40 prósent atkvæða hjá demókrötum.
Hjá repúblikönum fékk Donald Trump 34,5 prósent og John Kasich með 16,3 prósent. Ted Cruz, sem sigraði kosningarnar í Iowa, var með 11,5 prósent fylgi.
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir veitti lesendum Kjarnans innsýn í spennuna sem einkennir harða baráttu Bernie Sanders og Hillary Clinton í fréttaskýringu í gær.
Trump óskaði Sanders til hamingju
Sigur Sanders yfir Clinton er í samræmi við spár greinenda og mjög mikilvægur fyrir öldungardeildarþingmanninn þar sem næstu kosningar í forvalinu fara fram í ríkjum í suðurhluta Bandaríkjanna, þar sem staða Clinton er sterk. Yfirburðarsigur Trump er rakinn til þess að kjósendur repúblikana hafi mætt mjög vel á kjörstað og fylgi hans nú er mjög í takt við það sem fylgi hans mælist á landsvísu í könnunum.
Sanders, sem er vinstrisinnaðri stjórnmálamaður en Bandaríkjamenn eiga að venjast í forsetaslagnum, en myndi kallast jafnaðarmaður á Norðurlöndum, sagði við stuðningsmenn sína eftir sigurinn að þau hefðu saman sent mjög sterk skilaboð sem muni heyrast frá Washington til Wall Street. Skilaboðin voru að ríkisstjórn landsins tilheyrði öllum íbúum þess.
Trump var óvenjulega tilfinninganæmur í sinni ræðu, samkvæmt frásögn the Guardian. Hann hóf hana með því að þakka látnum foreldrum sínum og systkinum. Trump óskaði Berine Sanders meira að segja til hamingju með sinn sigur, en með sínum hætti. „Við þurfum að óska honum til hamingju þótt okkur líki ekki við það. Hann vill gefa burt landið okkar. Við ætlum ekki að láta það gerast."