Baldur Guðlaugsson lögfræðingur hefur verið skipaður formaður hæfisnefndar sem á að meta umsækjendur um starf skrifstofustjóra í atvinnuvegaráðuneytinu. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipar nefndina. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Helga Hlín Hákonardóttir lögfræðingur eru einnig í nefndinni.
Starfið sem um ræðir er starf skrifstofustjóra viðskipta-, nýsköpunar og ferðaþjónustu, en það var nýlega auglýst laust til umsóknar. Alls sóttu 38 manns um starfið, samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu.
Baldur Guðlaugsson var árum saman ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Hann var færður til í starfi eftir að ný ríkisstjórn tók við árið 2009 og yfir í menntamálaráðuneytið. Hann lét af störfum þar í október 2009 í kjölfar þess að sérstakur saksóknari hóf rannsókn á mögulegum innherjaviðskiptum Baldurs í aðdraganda bankahrunsins, en hann seldi bréf sín í Landsbankanum í september 2008 fyrir um 192 milljónir króna. Þann 7. apríl 2011 var Baldur dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraðsdómi Reykjavíkur. Sá dómur var staðfestur í Hæstarétti í febrúar 2012. Baldur lauk afplánun sinni á árinu 2013. Hann hefur starfað sem ráðgjafi á lögmannsstofunni Lex frá haustinu 2012.
Þriggja manna hæfnisnefndir eru venjulega skipaðar þegar auglýst eru störf ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í ráðuneytum. Tilgangurinn er að stuðla að því að val á þessum embættismönnum ráðist af hæfni umsækjenda og grundvallist á ráðningarferli þar sem jafnræði og gagnsæi eru höfð að leiðarljósi. Það er viðkomandi ráðherra sem skipar nefndina hverju sinni og á hann samkvæmt reglum að gæta þess að „þar sé fyrir hendi góð þekking á starfsemi Stjórnarráðs Íslands og mannauðsmálum.“
Hæfnisnefndir fá greiddar þóknanir fyrir störf sín, en það er þóknananefnd sem ákveður laun nefndarmanna á grundvelli erindis og gagna frá viðkomandi ráðuneyti.
Athugasemd klukkan 15:30: Upphaflega stóð í fréttinni að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, skipi nefndina, en það er Sigurður Ingi, vegna þess að hann fer með starfsmannamál í ráðuneytinu sem þau deila. Skrifstofan heyrir hins vegar undir Ragnheiði Elínu.