Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, mun á morgun leggja fram á ný frumvarp sem felur í sér að skipulagsvald sé tekið af Reykjavíkurborg á Reykjavíkurflugvelli og fært til ríkisins. Höskuldur vill sömuleiðis kanna hvort ekki eigi að flokka allt innanlandsflug sem almenningssamgöngur þannig að það geti verið styrkt á þeim forsendum. Þetta kom fram í máli Höskuldar á opnum fundi Framsóknarflokksins á Egilsstöðum í gær. Fréttavefurinn Austurfrétt greinir frá.
Höskuldur sagði enn fremur að finni „sífellt meiri og betri stuðning við frumvarpið“ og að það verði aldrei byggður flugvöllur í Hvassahrauni, líkt og Rögnunefndin svokallað mælti með að yrði kannað ítarlega.
Höskuldur hefur áður lagt fram frumvarpið og í fyrrasumar stóð allur þingflokkur Framsóknarflokksins að baki því þegar það var lagt fram. Þá snérist frumvarpið um að ríkið myndi taka yfir skipulagsvald á öllum alþjóðaflugvöllum í landinu, þar á meðal Reykjavíkurflugvelli. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir því að hin svokallaða neyðarbraut flugvallarins loki í náinni framtíð og að flugvöllurinn verði ekki til frambúðar í Vatnsmýrinni. Mikil andstaða hefur verið gagnvart þeim breytingum, meðal annars hjá Framsóknarmönnum sem buðu fram með þrýstihópi flugvallarvina í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík.
Ef frumvarpið verður að lögum mun skipulagsvaldið færast frá borginni á hendur innanríkisráðherra. Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagðist ekki styðja frumvarpið þegar það var lagt fram í fyrra og sagði að hún gæti ekki séð fyrir sér að sú niðurstaða sem boðuð væri í frumvarpi Höskuldar væri niðurstaða sem sátt yrði um.