Kjarninn var fullur af gæðaefni um helgina og þar var farið um víðan völl.
Á laugardagsmorgun kom í ljós að yfir 70 þúsund manns höfðu skrifað undir áskorun Kára Stefánssonar um endurreisn heilbrigðiskerfisins, sem gerði undirskriftasöfnunina þá stærstu í sögunni þar sem áskorun er beint til íslenskra stjórnvalda. Hingað til hafði Hjartað í Vatnsmýri verið stærsta söfnunin af þessu tagi.
Fótbolti var óvenju fyrirferðamikill í umfjöllun um helgina. Freyr Eyjólfsson, fréttaritari Kjarnans í París, skrifaði um stórliðið Paris Saint-Germain, sem hefur ekki tapað leik síðan í mars í fyrra. Yfirburðir liðsins í Frakklandi eru ótrúlegir en í vikunni tekur liðið á móti enska liðinu Chelsea.
Sagnfræðingurinn Kristinn Haukur Guðnason skrifaði svo um Leicester City, sem á möguleika á enska meistaratitlinum í fyrsta skipti. Kristinn fór yfir óvænta deildarmeistara í fótboltanum víða um Evrópu.
Borgþór Arngrímsson, fréttaritari Kjarnans í Kaupmannahöfn, minntist þess að ár var liðið í gær frá voðaverkunum þar í borg. Þá kom ungur Dani að samkomuhúsinu Krudttønden á Austurbrú og hóf skothríð.
Bandaríkin voru líka til umfjöllunar, en Bjarni Bragi Kjartansson skrifaði um valdamesta embætti heimsins - embætti forseta Bandaríkjanna. Núverandi forseti Bandaríkjanna var líka í sviðsljósinu, en Barack Obama ætlar að tilnefna nýjan Hæstaréttardómara í stað Anthonin Scalia, sem lést um helgina.
Og svo er það laxinn, en Herdís Sigurgrímsdóttir sagði lesendum Kjarnans frá því að norskir vísindamenn áætla að um þriðjungur alls laxafóðurs geti átt uppruna sinn í barrskógum Noregs þegar fram líða stundir.
Á sunnudagskvöld greindi Kjarninn svo frá því að Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar í dag að leggja fram frumvarp sem tekur skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg þegar kemur að flugvellinum í Vatnsmýrinni.