Íslenska fyrirtækið Florealis, sem sérhæfir sig í þróun og markaðsetningu á skráðum jurtalyfjum, hefur tryggt sér 50 milljón króna fjármögnun. Að fjárfestingunni standa sérhæfðir fjárfestar úr lyfjageiranum auk englafjárfesta. Þetta er önnur lota fjármögnunar sem Florealis hefur farið í gegnum því fyrirtækið hafði áður tryggt sér sömu fjárhæð í frumfjármögnun snemma árs 2014.
Florealis hét áður Herberia og tók þátt í Startup Reykjavík hraðalnum árið 2013. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og markaðssetningu á skráðum jurtalyfjum við vægum algengum sjúkdómum. Jurtalyf eru viðurkennd lyf sem framleidd eru úr virkum náttúruefnum samkvæmt sömu gæðastöðlum og hefðbundin lyf.
Kjarninn fjallaði um Florealis/Herberia í umfjöllun sinni um Startup Reykjavík viðskiptahraðalinn árið 2014.
Þetta eru ekki einu gleðitíðindinn sem Florealis hefur fengið að undanförnu. Í lok janúar hlaut Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri og stofnandi fyrirtækisins, Hvatningarverðlaun Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA). Í niðurstöðu FKA sagði að Kolbrún væri brautryðjandi á sínu sviði hérlendis „og fyrirmynd margra ungra kvenna í lyfjageiranum.“