Osló í Noregi, Kaupmannahöfn í Danmörku, Stokkhólmur í Svíþjóð og Helsinki í Finnlandi eru eftirsóttustu staðir Norðurlandanna. Reykjavík ratar ekki í efstu sætin og endar í því tíunda. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um stöðu Norðurlandanna, The State of the Nordic Region 2016, sem birt var í Kaupmannahöfn í morgun. Norðurlöndin eru skilgreind sem Ísland, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk, ásamt Færeyjar, Grænland og Álandseyjar.
Svæðin í eftstu sætunum búa yfir mikilli samkeppnishæfni og laða að sér bæði fjármagn og mannauð. Horft er á þróun og framtíðarhorfur einstakra svæða eru háðar efnahagshorfum, horfum á vinnumarkaði og íbúaþróun. Notast er við nýjan flokkunarstuðul Nordregio til að greina og flokka einstaka þætti.
Höfuðborgarsvæðið best á Íslandi
Höfuðborgarsvæði hinna Norðurlandanna; Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar raða sér í efstu sætin þegar frammistaða landanna er metin. Einungis tvö íslensk svæði komast inn á lista efstu tuttugu sætanna, höfuðborgarsvæðið vermir tíunda sætið og Suðurnesin eru í því átjánda.
Bæði svæðin teljast hafa nokkuð góða möguleika varðandi íbúaþróun og eru yfir meðallagi þegar kemur að framtíðarmöguleikum efnahags og vinnumarkaðar. Önnur svæði á Íslandi eru í 26. til 41. sæti en samanborið við úttekt á árunum 2010 til 2015 eru Suðurnesin eina svæðið sem hefur bætt sína stöðu á meðan framtíðarsýn hinna hefur hrakað.
Þriðja mesta fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu
Fljótsdalshreppur og Breiðdalshreppur eru meðal þeirra sveitarfélaga sem verst standa varðandi fólksfækkun sem er um 1,5% að meðaltali á ári. Austfirsku hreppirnir tveir eru þar með í hópi sjö sveitarfélaga sem glíma við hvað mestan vanda varðandi neikvæða íbúaþróun. Í skýrslunni eru tekin dæmi um önnur sveitarfélög eins og Loppa í Finnmörku og Puumala og Hyrynsalmi í Norður-Finnlandi.
Á sama tíma var fólksfjölgun hlutfallslega mikil í Kjósarhreppi, um þrjú prósent, sem þykir nokkuð mikið jafnvel samanborðið við stærri byggðarlög þar sem fólksfjölgun er jafnan mest. Höfuðborgarsvæðið er með þriðju mestu hlutfallslegu fólksfjölgunina á öllum Norðurlöndunum á árunum 1995 til 2015 eða 35%, aðeins í Stavanger í Noregi og Oulu í Finnlandi hefur fjölgunin verið meiri hlutfallslega.
Ísland stendur upp úr með húsnæðisframkvæmdir
Húsnæðisverð á Íslandi virðist vera í meðallagi þegar borið er saman við hin Norðurlöndin. Svíþjóð er með dýrasta verðið samkvæmt skýrslunni og Noregur með næstdýrast. Ísland kemur þar á eftir. Ódýrasta húsnæðið er í Danmörku.
Tekið er fram í skýrslunni að það sé sláandi að framkvæmdir vegna nýbygginga og íbúða á Norðurlöndunum hafa alls staðar staðið í stað á árunum 2013 til 2014, að Íslandi undanskildu, þar sem er örlítil aukning.