Landsbankinn hélt mögulegum greiðslur af valrétti milli Visa Inc. og Visa Europe fyrir utan verðmat á 38 prósent hlut sínum í Valitor þegar fyrirtækið var selt til Arion banka í desember 2014. Ástæðan hafi verið sú að mikil óvissa hafi verið uppi um mögulega nýtingu valréttarins og að ekki væri víst að hann yrði virkjaður. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Á heimasíðu bankans, í svokallaðri spurt og svarað-síðu vegna sölunar á Borgun, kemur hins vegar fram að við verðlagningu á hlutnum hafi verðið meðal annars ráðist af því að bankinn taldi forsendur til að semja um viðbótargreiðslu ef Visa Inc. myndi kaupa Visa Europe. Þegar Valitor var selt á 3,6 milljarða króna var sá margfaldari eiginfjár sem stuðst var við við verðmatið 1,18. Þegar hlutur bankans í Borgun var seldur nokkrum vikum fyrr á 2,2 milljarða króna, var margfaldarinn 1,88. Valitor-hluturinn var því seldur á mun lægra verði en hluturinn í Borgun miðað við eigið fé.Kjarninn greindi frá því í desember 2014 að þegar kaupverðið á hlutnum í Borgum var mátað við mælikvarða sem fjárfestar styðjast oft við þegar þeir meta fjárfestingakosti virtist það vera lágt, bæði í samanburði við virði erlendra greiðslukortafyrirtækja, virði annarra fjármálafyrirtækja og félaga sem skráð eru á markað á Íslandi. Sama má segja um verðið á hlutnum í Valitor.
Ekki upplýst um hvað Landsbankinn fær
Enn er óljóst hversu mikið fellur Landsbankanum í skaut vegna valréttar Valitor. Fréttastofa RÚV greindi frá því í síðustu viku að Landsbankinn hefði fengið heimild til að gera nánari grein fyrir skilmála í samningi sem gerður var vegna kaupa bankans á 38 prósent hlut Landsbankans í Valitor. Landsbankinn synjaði hins vegar fréttastofu RÚV um að fá umræddan skilmála afhentan. Í bréfi sínu til Bankasýslu ríkisins nokkrum dögum síðar var hins vegar greint frá því hver skilmálinn er. Þar segir: „Viðbótargreiðslur, sem Landsbankinn kann að fá frá Arion banka vegna valréttarins, svara til 38% af andvirði greiðslna sem berast VISA Ísland (dótturfélag Valitor) að teknu tilliti til skatta, gjalda og kostnaðar sem slíkum greiðslum kann að fylgja. Viðbótargreiðslur lækka í 20% ef, og frá og með þeim tíma sem, Landsbankinn gengur úr viðskiptum við Valitor."
Valitor er bæði útgefandi og aðalleyfishafi Visa og, samkvæmt umfjöllun í fjölmiðlum, á fyrirtækið von á allt að fimmtán milljarða króna greiðslu vegna samruna Visa Inc. og Visa Europe. Ekki hefur verið gefið upp hjá Landsbankanum hversu háa greiðslu hann býst við að fá vegna valréttarins, á grundvelli ofangreinds skilmála, en vert er að benda á að Borgun hefur þegar upplýst hversu mikið fyrirtækið telur að falli í sinn hlut vegna nýtingu á sínum valrétti.