Aðilar tengdir þeim Kaupþingsmönnum sem nú afplána þunga
dóma á Kvíabryggju eru sagðir hafa leitað með óformlegum hætti til Fangelsismálastofnunar Íslands
í fyrra vegna hugmynda um að opna og reka „lúxus“ áfangaheimili fyrir
sterkefnaða fanga. Þetta kemur fram í frétt á vef Kvennablaðsins í dag.
Þar kemur fram að Fangelsismálastofnun hafi hafnað hugmyndunum. Í frétt Kvennablaðsins segir:
„Fangar sem Kvennablaðið hefur rætt við segja þá Ólaf Ólafsson fjárfesti og fyrrum hlutahafa í Kaupþingi og Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, vera prímus motor að baki hugmyndinni. Þeir hafi rætt hugmyndina fjálglega sín á milli og við aðra fanga.“ Aðallega hafi lagst illa í mennina að deila herbergi með öðrum, líkt og tíðkast á því áfangaheimili sem nú er rekið á Íslandi.
Eitt áfangaheimili er rekið hérlendis, Vernd, sem er á Laugateig 19 í Laugarneshverfinu í Reykjavík. Það hefur verið starfrækt frá árinu 1995 og hátt í þúsund fangar hafa lokið afplánun sinni þar í samræmi við lög um fullnustu refsingar. Þeim föngum sem dvelja á áfangaheimili eins og Vernd er heimilt að sinna vinnu á daginn en þurfa að lúta reglum heimilsins og takmörkunum á ferðafrelsi sínu. Vistmenn hafa heimild til að vera utan Verndar frá sjö að morgni til ellefu að kvöldi á virkum dögum en til níu að kvöldi um helgar.
Heimildir Kjarnans staðfesta að rétt sé að lagðar hafi verið fram hugmyndir um að opna annað áfangaheimili, sem myndi starfa innan sama lagaramma og Vernd, um mitt ár í fyrra.
Í frétt Kvennablaðsins kemur fram að heimildamenn nátengdir Kaupþingsmönnum á Kvíabryggju hafi þvertekið fyrir að þeir hafi staðið að baki því að vilja opna nýtt áfangaheimili.