Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, ætlar að sitja á þingi út kjörtímabilið. Hún ætlar ekki að gefa kost á sér áfram til forystustarfa innan flokksins á komandi landsfundi og hættir á þingi fyrir kosningar næsta vor.
Katrín segir í samtali við Kjarnann að ákvörðunin hafi verið tekin út frá henni sjálfri og sé ekki hluti af stærra, pólitísku plani.
„Þetta hefur ekki með neitt annað að gera en að ég vildi gefa fólki tíma til að melta þá ákvörðun til að bjóða sig fram til forystuhlutverks innan flokksins. Fólk þarf tíma til að taka slíkar ákvarðanir og ég vildi bara taka mig út úr þeirri jöfnu til að fólk geti metið stöðuna eins og hún raunverulega er,“ segir hún. „En ég mun sitja út kjörtímabilið."
Katrín sendi samflokksmönnum sínum bréf þar sem segir að hún hafi tekið þá ákvörðun að hætta á þingi og gefa ekki áfram kost á sér sem varaformaður. Í kjölfarið fóru af stað umræður um hvort hún mundi hætta á þingi í vor og Magnús Orri Schram, varamaður hennar, tæki þá hennar stað.
Katrín segir þetta ekki á rökum reist, enda ætli hún sér að sitja á þingi fram að kosningum.
Magnús Orri hefur verið orðaður sem mögulegur formannsframbjóðandi á landsfundi flokksins í júní. Fleiri nöfn sem hafa verið nefnd eru Helgi Hjörvar þingflokksformaður, Oddný G. Harðardóttir og svo sitjandi formaður Árni Páll Árnason, en hann hefur enn ekki gefið út hvort hann ætli að gefa kost á sér áfram.