Ríkissaksóknari hefur fallið frá áfrýjun til Hæstaréttar í hinu svokallaða Aserta-máli en Héraðsdómur Reykjaness hafði í desember árið 2014 sýknað fjóra menn sem voru ákærðir brot á lögum um gjaldeyrisviðskipti. DV greinir frá þessu í dag, en áður hafði verið greint frá því að Ríkissaksóknari ætlaði sér að áfrýja málinu til Hæstaréttar.
Ákærðir í málinu voru Gísli Reynisson, Ólafur Sigmundsson, Markús Máni Michaelsson Maute og Karl Löve Jóhannsson, en málinu er nú lokið og þeir saklausir af þeim sökum sem beindust að þeim.
Aserta-málið vakti athygli á sínum tíma og boðað var til sérstaks blaðamannafundar í höfuðstöðvum Ríkislögreglustjóra í janúar 2010 þar sem málið var kynnt. Mennirnir höfðu þá verið kærðir og eignir þeirra frystar.
Ingibjörg Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, Gunnar Andersen, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Helgi Magnús Gunnarsson, þáverandi saksóknari efnahagsbrota og nú aðstoðarríkissaksóknari, voru á fundinum og var málið sagt fordæmalaust að umfangi.
Voru meint ólögleg viðskipti þeirra sögð hafa numið um þrettán milljörðum króna, og átt þátt í því að grafa undan gengi krónunnar.
Þegar fjórmenningarnir voru upphaflega ákærðir af sérstökum saksóknara í mars 2013 var ákært fyrir stórfellt brot á gjaldeyrisreglum Seðlabanka Íslands en síðar var fallið frá stórum hluta málsins.
Eftir stóð þá ákæra vegna meintra brota á 8. grein laga um gjaldeyrismál þar sem segir að leyfi Seðlabankans þurfi til að eiga milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi. Í desember 2014 voru þeir sýknaðir af þeim hluta málsins sem eftir stóð, og er nú málinu lokið, eins og áður segir.