„Ýmis sakamál hafa verið höfðuð eftir hrun. Í flestum þeirra hefur verið sakfellt og sýnist sitt hverjum, eins og gengur. Eitt mál er þó þannig vaxið að það var aldrei neitt mál – og ekki einu sinni nálægt því. Það var ljóst frá degi eitt. Búið var til sakamál sem átti sér enga stoð. Málareksturinn stóð í sex ár. Honum lauk endanlega í dag með því að ríkissaksóknari féll frá áfrýjun á afar skýrum og vel rökstuddum sýknudómi héraðsdóms frá desember 2014. Málið hefði aldrei átt að verða sakamál, það átti aldrei að gefa út ákæru í því og það átti aldrei að áfrýja héraðsdóminum. En líklegast þarf enginn að bera á þessu ábyrgð – ekki frekar en fyrri daginn.“
Þetta segir Arnar Þór Stefánsson hrl., lögmaður Ólafs Sigmundssonar, sem var einn ákærða í Aserta-málinu, á Facebook síðu sinni. Eins og greint var frá í dag er málinu nú lokið, rúmlega sex árum eftir að það hófst með kærum og eignafrystingu gagnvart fjórum mönnum, þeim Gísla Reynissyni, Markúsi Mána Michaelssyni Maute, Karli Löve Jóhannssyni og fyrrnefndum Ólafi.
Aserta-málið vakti athygli á sínum tíma og boðað var til sérstaks blaðamannafundar í höfuðstöðvum Ríkislögreglustjóra í janúar 2010 þar sem málið var kynnt. Mennirnir höfðu þá verið kærðir og eignir þeirra frystar.
Ingibjörg Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, Gunnar Andersen, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og Helgi Magnús Gunnarsson, þáverandi saksóknari efnahagsbrota og nú aðstoðarríkissaksóknari, voru á fundinum og var málið sagt fordæmalaust að umfangi.
Voru meint ólögleg viðskipti þeirra sögð hafa numið um þréttan milljörðum króna, og átt þátt í því að grafa undan gengi krónunnar.
Þegar fjórmenningarnir voru upphaflega ákærðir af sérstökum saksóknara í mars 2013 var ákært fyrir stórfellt brot á gjaldeyrisreglum Seðlabanka Íslands en síðar var fallið frá stórum hluta málsins.